143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:22]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Skuldavandinn hefur verið eitt erfiðasta og mest rædda lífskjaraatriði hrunsins. Hávær krafa hefur verið um flatan niðurskurð húsnæðisskulda, bæði hér innan þings og utan. Sú krafa hefur verið réttlætt með því að forsendur lántöku hafi breyst og skuldir tekið stökkbreytingu eftir hrun.

Í upphafi árs 2012 var það mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að afskriftir skulda heimila hafi þá þegar numið 15–20% af skuldum, bæði það sem búið var að afskrifa og það sem var í vinnslu á þeim tíma. Ein aðalástæða þess að Framsóknarflokkurinn er í ríkisstjórn eru loforð hans um að leiðrétta skuldir heimilanna með niðurfellingu á heimsmælikvarða um leið og hann kæmist til valda. Formaðurinn komst svo að orði:

„Skjaldborgin um heimilin sneri öfugt, og skjaldborg sem snýr öfugt kallast umsátur. Við þurfum að leiða sóknina til að rjúfa umsátrið um heimilin.“

Svo mörg voru þau orð og nú erum við hér og hæstv. forsætisráðherra loks að tilkynna þingi og þjóð hvað skuli gera. En hvað er það nákvæmlega?

Ég er engu nær eftir yfirferð ráðherrans hér áðan og ég held að þeir sem sitja heima og bíða, og hafa beðið frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum, séu líka litlu nær. Þetta var óútfært fyrir kosningar og það er kannski mesta skömmin í öllu málinu. Fólk taldi að þetta væri útfært, það var sagt af hálfu þingmanna Framsóknarflokksins þar sem ég sat fundi. Það mátti bara ekki segja frá því hvernig þetta væri af því að þá var eins og verið væri að ljóstra einhverju upp sem aðrir gætu tekið til sín og gert að sínu. En það hefur komið á daginn að svo er ekki heldur eru málin því miður óútfærð og verkefnið kannski miklu stærra en margur þingmaður ríkisstjórnarflokkanna virðist hafa gert sér grein fyrir.

Talað hefur verið um tilfærslu á fé af landsbyggðinni, talað hefur verið um tímalínu, hvenær — og ég tek undir allar þær spurningar sem varpað hefur verið fram um þessi mál, það er mjög mikilvægt að þeim verði svarað. Það er rétt að fara yfir það líka sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sagði hér áðan, vegna Hagstofumálsins, að það hefði þurft til til að hægt væri að fara í þessi leiðréttingamál. Það kom hins vegar fram í umræðunni í sumar að svo var ekki.

Ég tek líka undir það með hv. þm. Helga Hjörvar að það sem vakti athygli mína var einmitt það að nú væri byrjað að smíða frumvarp um niðurfærslu höfuðstóls. Það segir manni að búið sé að taka einhverjar ákvarðanir og eitthvað virðist liggja fyrir sem ekki hefur verið sagt. Það er kannski eins og með gögn hagræðingarhópsins sem við höfum ekki fengið í hendur — skýringin er sú að þingmenn verði ekki heima á morgun og þar af leiðandi sé ekki hægt að birta þau fjárlaganefnd og okkur sem um það báðum þar. Líklega verður allri alþjóð bara birt þetta á mánudaginn og við sem erum að vinna við gerð fjárlaga þurfum ekkert frekar að heyra það fyrr en þá.

Það sem oft hefur heyrst í gegnum tíðina eða síðustu ár er að ekkert hafi verið gert fyrir skuldug heimili af fyrri ríkisstjórn. Ástæða er til að rifja upp að hún greip til fjölmargra ráðstafana, upphafsbráðaaðgerða, t.d. frystingar lána, stöðvunar nauðungaruppboða, aðgerða eins og greiðslujöfnunar, almennrar og sértækrar skuldaaðlögunar, 110%-leiðarinnar, verulegrar hækkunar almennra vaxtabóta og upptöku sértækra vaxtaniðurgreiðslna upp á rúmlega 6,5 milljarða, bæði árin 2011 og 2012.

Þrátt fyrir það held ég að ekkert okkar hér inni efist um að hjá mörgum heimila jukust fjárhagsþrengingar umtalsvert eftir hrunið. Það var aðallega vegna kaupmáttarrýrnunar, og aukinnar skuldabyrði vissulega, og þannig er staðan enn hjá mörgum. En út frá umfjöllun AGS virðist ljóst að aðgerðirnar sem gripið var til á Íslandi hafi verið bæði umfangsmiklar og markvissar. Vandi okkar var vissulega meiri en víða, bæði vegna hárra skulda, hruns íslensku krónunnar og verðbólgu. Hækkun vaxtabóta var ein af stóru aðgerðunum og ekki bara almenn aðgerð heldur beindist hún sérstaklega að tekjulægri fjölskyldum vegna þeirra reiknireglna sem gilda um bæturnar. Þær höfðu því mikið að segja til að milda kreppuáhrifin á viðkvæmari fjölskyldur og heimili.

Virðulegi forseti. Í sögulegu samhengi langar mig að vitna í skýrslu sem ber heitið Áhrif mótvægisaðgerða á skuldavanda, fátækt og atvinnu. Þar er vitnað í John Maynard Keynes sem sagði að kreppan mikla hefði verið eftirspurnarkreppa sem kom í kjölfar bóluhagkerfis og tengdrar fjármálakreppu þar sem kjaraskerðing, atvinnuleysi og skuldavandi drógu neyslugetu heimila er leiddu til vítahrings samdráttar og vaxandi þrenginga. Ríkisvaldið er eini aðilinn sem getur rofið vítahringinn, sagði Keynes, og ætti að gera það með stýringu eftirspurnar. Þannig þyrfti ríkið að stuðla að aukinni eftirspurn með því að veita fjármagn til framkvæmda og atvinnuskapandi aðgerða auk kjarabóta til heimila og atvinnulausra sem kæmi hjólum atvinnulífsins í gang á ný. Sú vinna var hafin á síðasta kjörtímabili en virðist ekki eiga að halda áfram nú.

Leið síðustu ríkisstjórnar var sem sagt í anda þessara keynes-ísku viðbragða við kreppuástandi og velferðarstefnu vegna þess að gripið var til endurdreifingar tekna þar sem bótagreiðslur til hópa með lægri tekjur voru auknar og skattbyrði á hópa með lágar tekjur eða millitekjur var lækkuð en um leið hækkuð á hópa með hærri tekjur. Það varð til þess að minna þurfti að skera niður en ella í opinberum útgjöldum þó að nóg hafi verið samt. Samkvæmt opinberum gögnum heppnaðist þessi aðgerð vel. En þessi ríkisstjórn fer þveröfuga leið og lægst launaða fólkið situr eftir með þeim aðgerðum sem nú þegar hafa komið fram og hér í gær sagði hæstv. fjármálaráðherra að ríkið ætti ekki að standa í stórum framkvæmdum á atvinnuskapandi aðgerðum heldur ætti markaðurinn að sjá um það.

En af því að jafnan er talað um skuldavanda er ástæða til að fara aðeins í muninn á honum og greiðsluvanda. Stór hópur fólks á í greiðsluvanda þar sem ráðstöfunartekjur heimilisins duga ekki til að standa undir greiðslubyrði lána og framfærslu og það er jafnan tekjulægsta fólkið. Í skuldavanda er hins vegar fólkið sem gjarnan á eignir og er þá með neikvætt eigin fé.

Mikið hefur verið rætt um almennar aðgerðir í þessu samhengi hér í þinginu og línurnar hafa verið skýrar þrátt fyrir að margt hafi komið fram sem segir að almennar skuldaaðgerðir hjálpi ekki þeim verst settu heldur komi þeim sem hafa hæstu tekjurnar best. Ég held, virðulegi forseti, að það sé ómarkviss nýting fjármuna.

Vegna þess hve mikið hefur verið rætt um það mikilvæga mál sem skuldastaða heimilanna er hefur að sama skapi orðið æ ljósara hvar vandinn er mestur. Þar er um að ræða tekjulægri barnafjölskyldur, ekki síst fólk á aldrinum 30–40 ára sem festi kaup á húsnæði á bólutímanum, stundum sínu fyrsta húsnæði, á uppsprengdu verði með tilheyrandi stærri skuldasöfnun en áður hafði tíðkast á Íslandi. Það eru líka tekjulágir einhleypir aðilar sem búa einir og svo leigjendur. En það liggur líka fyrir að vandi þeirra fjölskyldna sem eru í greiðsluerfiðleikum stafar ekki síður af öðrum skuldum en fasteignaskuldum og hefur verið talað um allt að helming sem neysluskuldir.

Virðulegi forseti. Í allri þessari umræðu finnst mörgum réttlætið líka fótum troðið. Auknar skuldir, eigið fé horfið, gjaldeyrislán vissulega verið leiðrétt en svo virðist einhvern veginn allt vera á sömu leið aftur hjá þeim sem aurana eiga jafnvel eftir gríðarlegar afskriftir. Til framtíðar litið eigum við auðvitað að horfa til ráðstöfunartekna barnafjölskyldna og auka þær með hækkun barnabóta og hærri tekjuskerðingarmörkum, hækka húsnæðisbætur og styðja þannig við fjölskyldur í leiguhúsnæði einnig. Markmiðið er auðvitað að grundvallareiningar samfélagsins, heimilin, búi við það öryggi og þann stöðugleika sem heimili eiga að byggja á.