143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýrsluna og ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mjög góð.

Ég vil skipta minni ræðu í þrennt, þ.e. skoða fortíðina, skoða nútíðina og svo framtíðina. Ég ætla að byrja á fortíðinni.

Það hefur mjög margt verið gert á síðasta kjörtímabili og ég ætla ekki að vanmeta það. Ég ætla að taka undir það að gerðar voru margar leiðréttingar, það var 110%-leiðin, það voru sérstakar vaxtabætur o.s.frv. sem var vel, margt hvert. Síðan kom Hæstiréttur og hjálpaði heimilum heldur betur með því að benda á það augljósa að gengistryggð lán eru ólögleg. Þannig náðist fram mjög mikil skuldalækkun heimilanna. En mjög margt er óunnið þrátt fyrir það sem gert hefur verið.

Í fyrsta lagi er það sem menn kalla forsendubrest. Verðtryggð lán hækkuðu um allt að 18% á einu ári. Gengislán hækkuðu náttúrlega miklu meira en svo var það lagað með dómi Hæstaréttar. Það er ekkert óþekkt í Íslandssögunni að verðtryggð lán hafi hækkað mikið. Ég man þá tíð að verðbólgan var 50, 60, 70 og upp í 130% þegar verst lét. Þá finnst manni kannski 18% ekkert voðalega mikið.

Það sem var kannski meiri forsendubrestur var atvinnuleysið. Allt í einu missti fjöldinn allur af fólki atvinnuna. Og til hvers hafa menn atvinnu? Til að borga t.d. framfærslu barna og framfærslu heimilisins sem er verðtryggð með neysluvísitölu og borga af lánum sem eru líka verðtryggð og borga leigu sem oft er verðtryggð líka. Þessi forsendubrestur hefur ekki verið nefndur oft en fleiri þúsund manns misstu vinnuna. Sumir misstu alla yfirvinnu, aðrir misstu allar uppbætur á laun sem þeir höfðu áunnið sér o.s.frv. Tekjur heimilanna lækkuðu því umtalsvert.

Svo komu til skattahækkanir. Þó að fyrri ríkisstjórn hafi gert margt gott eins og ég sagði gerði hún þau risamistök að mínu mati, það er mitt mat, að reyna að leysa kreppuna og leiða þjóðina út úr kreppunni með skattahækkunum. Það hefur ekki síður bitnað á fjölskyldunum. Svo fóru menn í niðurskurð sem er ágætt nema þegar það ríkir atvinnuleysi. Þá gerist það í niðurskurði, sérstaklega hjá ríkinu þar sem 70–80% af kostnaðinum eru laun, að fólki er sagt upp. Og hvert skyldi það fólk fara sem er sagt upp þegar enga atvinnu er að hafa? Það fer á atvinnuleysisskrá, á launaskrá hjá ríkinu. Það fer sem sagt úr einum stað í annan og þetta breytir eiginlega stöðunni ekkert voðalega mikið. Fólkið lækkar reyndar mikið í launum. Þetta er mjög skaðlegt og við höfum horft upp á það. Þarna held ég að menn hafi gert mistök.

Svo er það sem menn hafa verið að tala um, en kannski ekki beint, og það er fasteignabólan sem fór í gang við innrás eða innhlaup bankanna inn á fasteignamarkaðinn 2004. Hún byrjaði í júní, júlí og hafði mest áhrif í október, nóvember og fasteignaverð hækkaði gífurlega á Íslandi. Það högnuðust náttúrlega allir sem áttu fasteignir fyrir því lánin hækkuðu engan veginn á sama hátt. En síðan hækkaði fasteignaverðið og náði hámarki í október 2007, held ég að það hafi verið. Svo lækkaði það lítillega og féll síðan fyrir alvöru eftir hrun. Það var í október, nóvember 2009 sem fallið var mest. Þessi fasteignabóla skilur eftir sig sár. Við sjáum þetta reyndar víða og á Írlandi var fasteignabólan verri að talið er, en hér var hún þannig að menn töpuðu 35% af raungildi fasteigna. Á Írlandi var það víst 50%.

Þetta er fortíðin og menn hafa ekki leyst vandann sem skapaðist út af fasteignabólunni. Menn höfðu reyndar þekkt hann áður úti á landi þar sem fólk hafði byggt íbúðir, ekki keypt. Menn lentu yfirleitt alltaf í því að þeir voru með eitthvert eigið fé og þegar þeir fluttu inn í nýja húsið skulduðu þeir meira en þeir áttu. En það var enginn að kvarta neitt yfir því, menn borguðu bara af þessum lánum, gátu ekki selt, bjuggu við átthagafjötra og slíkt. Stundum var talað um þetta en það er ekki fyrr en þetta gerist í Reykjavík í stórum stíl að menn fara að tala um þetta og blása þetta út, þ.e. eiginfjárvandann.

Þetta var fortíðin. Hver er staðan í dag, hver er nútíminn? Ég vil segja að þáverandi ríkisstjórn gerði ýmislegt gott en hún gerði hins vegar þau mistök að ætla að skattleggja okkur út úr kreppunni og að skera niður í atvinnuleysi. Nútíðin er sú að það er loksins búið að semja frumvarp um Hagstofuna og samþykkja. Ég kallaði eftir því aftur og aftur á síðasta kjörtímabili hver væri hin raunverulega staða. Mér fannst oft og leið oft þannig eins og ég væri að sigla skipi um skerjagarð en það var búið að draga fyrir alla gluggana. Ég vissi bara ekkert hvert ég var að sigla. Maður heyrði alhæfingar um þetta og hitt.

En svona sýnist mér staðan vera, mjög lauslega: Hagstofan segir að 27% heimila leigi, búi í leiguhúsnæði. Hlutfallið var 18% fyrir nokkrum árum. Þetta er afleiðing kreppunnar. Margir hafa misst húsnæði sitt. Þessi hópur nýtur lítillar velvildar og fær litla umræðu hér á Alþingi, allt of litla. Hann er í miklum vanda. Hann býr við síhækkandi leigu, verðtryggða leigu, skort á leiguhúsnæði og mikil uppboð. Þetta eru líka heimili, herra forseti.

Svo er það fólk sem býr í skuldlausum eignum. Það eru víst 21% — þetta er ég að reyna að sjá í gegnum gluggatjöldin í brúnni, ég fæ um þetta allt saman upplýsingar þegar Hagstofan kemur með skýrsluna. 21% heimila búa í skuldlausri eign. Það eru yfirleitt aldraðir sem njóta þess að búa í skuldlausri eign en þeir eru oft með mjög lágar tekjur til að reka eignina og eru oft í vanda þótt þeir búi í skuldlausri eign. Þetta hefur heldur ekki verið greint. Ég vænti mikils af þeirri skýrslu sem kemur frá Hagstofunni á grundvelli þeirra laga sem við settum í sumar.

Svo höfum við gert þau mistök að refsa fyrir ráðdeild og sparnað. Menn hafa kallað úr þessum stól það fólk sem sýnir ráðdeild og sparnað og leggur fyrir, fólk sem hét einu sinni sparifjáreigendur og þótti fínt, það er núna kallað fjármagnseigendur og þykir ljótt. Það er skattlagt alveg undir drep, jafnvel þó að vextirnir séu neikvæðir, nafnvextirnir eru kannski 4% í 5% verðbólgu, það er skattað um 1% niður með 20% skattlagningu. Það er verið að refsa fyrir sparnað og ráðdeild í dag og það er eitthvað sem ný ríkisstjórn verður að vinda bráðan bug að því að laga.

Hver er framtíðin? Við verðum að byrja á því að leysa snjóhengjuna. Það er kannski annað mál en kemur þessu samt við vegna þess að allt atvinnulífið er háð því að gjaldeyrishöftunum sé aflétt. Þau eru háð því að snjóhengjan sé leyst og atvinnusköpun atvinnulífsins til handa heimilunum verður að vera í lagi þannig að þau fái tekjur til að borga skuldir sínar og framfærslan á heimilinu er háð því að fyrirtækin gangi. Þetta hangir allt saman. Við þurfum að skapa atvinnu. Við þurfum að vinda ofan af þeirri skattlagningu sem hamlar vexti atvinnulífsins, sem hamlar því að fyrirtækin fjárfesti, að fyrirtækin vilji ráða fólk. Til dæmis tryggingagjaldið. Tryggingagjaldið er hreinn skattur á atvinnu, þ.e. ef einhverju fyrirtæki dettur í hug að ráða til sín starfsmann þá byrjar það á því að borga 35 þús. kr. á mánuði í tryggingagjald. Ofan af þessu þurfum við að vinda, herra forseti. Svo þurfum við að lækka verðbólguna því án verðbólgu er engin þörf á verðtryggingu.

Svo þurfum við að fara að skoða stöðu heimilanna að fenginni þeirri skýrslu sem Hagstofan kemur með og sviptir allt í einu gluggatjöldunum frá brúnni á skipinu sem við erum að sigla. Þá sjáum við allt í einu hver staðan er. Hvar kreppir að? Eru það leigjendur, eru það aldraðir, eru það öryrkjar? Hvar kreppir skórinn? Þá lögum við það sérstaklega, herra forseti. Svo þurfum við að sjálfsögðu að laga afleiðingar bólunnar.

Ég ætlaði að lesa úr stjórnarsáttmálanum en ég kemst ekki yfir það en þar er einmitt gert ráð fyrir því að afleiðingar fasteignabólunnar verði lagaðar með annaðhvort skattalegum aðgerðum eða beinum aðgerðum.