143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:49]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ímyndið ykkur þessa sviðsmynd: Framsóknarflokkurinn með dyggum stuðningi Sjálfstæðisflokksins nær að taka til ríkisins mikið fé og útdeila því til landsmanna til leiðréttingar á húsnæðislánum í almennri sátt. Ímyndið ykkur þá sviðsmynd. Hver verður stærsti flokkur landsins? Þetta er fíllinn á stjórnarheimilinu. Stærsti flokkur landsins verður Framsóknarflokkurinn.

Þá er spurningin hvort þeir sem stjórna Sjálfstæðisflokknum — sem er í rauninni ekki hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson, hann hefur mikil völd en er ekki sá eini sem stjórnar flokknum — geti leyft þessari sviðsmynd að verða að raunveruleika án þess að hagsmunir þeirra séu meira beintengdir stjórnarsamstarfinu. Við sjáum í dag að enginn ráðherra Sjálfstæðisflokksins er í þingsalnum við þessa umræðu.

Aðgerðaáætlunin er góð á pappír og stóru kosningaloforðin, sem eru eiginlega í 1. og 2. lið, eru leiðir til að ná fram höfuðstólslækkunum verðtryggðra húsnæðislána og tillögurnar eiga að liggja fyrir núna í nóvember.

Ég get sagt ykkur að samningsteymi kröfuhafa þrotabúanna fylgjast grannt með þessu. Þau mættu á fund okkar pírata og fleiri þingflokka og þau vita hver staðan er og sjá ósamræmið og slæmt samstarf stjórnarflokkanna. Það veikir samningsstöðu okkar gríðarlega og þá töpum við öll á þessu nema mögulega að því leyti að Framsóknarflokkurinn verður ekki áfram stóri flokkurinn, honum verður erfiðara að uppfylla kosningaloforð sitt. Þetta er erfitt kosningaloforð að uppfylla.

Fyrst þarf nefnilega að ná þessu fé frá kröfuhöfum og það þýðir að samningsferlið lengist, það verður lengra í að gjaldeyrishöftin verði afnumin. Það er eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett á oddinn, að sjálfsögðu, því að hann er flokkur sem fókuserar númer eitt, tvö og þrjú á efnahagsmálin, vill standa sig best þar og vera sá flokkur sem fólk horfir helst til í þeim efnum. Orðspor hans er ekkert sérstaklega gott núna og Sjálfstæðisflokkurinn þarf að bæta það þannig að hann hefur spilað gríðarlega vel, afnám hafta, hallalaus fjárlög, vel gert, virkilega góður fókus hjá Sjálfstæðisflokknum.

Staðreyndin er samt sem áður sú að stjórnarsamstarfið stendur höllum fæti af því að ósamræmi er milli hagsmuna. Ef við ætlum að ná góðum samningum við kröfuhafana verður að vera samstaða á stjórnarheimilinu. Það hefur ekki verið samstaða. Við höfum séð það í fjölmiðlum og í þinginu og við sjáum það í þingsal þegar engir ráðherrar Sjálfstæðisflokks eru í salnum.

Fyrir hönd flestra vina minna og vandamanna, sem eru flestir með há lán, vona ég að Framsókn takist að uppfylla þessi kosningaloforð. Fyrir mig persónulega og mína fjölskyldu vil ég sem fyrst afnám gjaldeyrishafta og uppgang efnahagslífsins, ég er ekki með nein lán. Ég er á leigumarkaði og hef alltaf verið. En ég held að til að ná sem bestum samningum við kröfuhafa verði þeir að sjá til þess að það ríki samstaða og einhugur á stjórnarheimilinu um hvernig eigi að ná fram aðgerðaáætluninni og að leysa samhliða þessi vandamál, leiðréttingu á húsnæðismálum heimilanna og gjaldeyrishöftin.