143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:58]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar þessi umræða fór af stað var ég dálítið ergileg yfir því að hún var heldur rýr og lítið nýtt í henni. En ég ætla þó að vera sanngjörn og segja að þegar líður á umræðuna kemur fram að ríkisstjórnarflokkarnir eru nú að átta sig á tvennu: Í fyrsta lagi því að það var heilmikið gert í skuldamálum heimilanna á síðasta kjörtímabili þó að því hafi alls ekki verið lokið og við höfum sagt að það er heilmikið eftir. Í öðru lagi kemur þar fram að hæstv. forsætisráðherra er þó með frumvarp í smíðum sem hlýtur að fela í sér, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar kom inn á áðan, að menn séu komnir með einhver svör við stóru spurningunum. En það sem er líka að koma í ljós í umræðunni, með þeim nefndafjölda sem settur var á laggirnar þar sem enn er verið að bæta í, er að þessi ríkisstjórn á í jafn miklum vanda og fyrri ríkisstjórn varðandi ýmis úrlausnarefni tengd skuldamálum heimilanna. Málið er kannski ekki svona einfalt eins og það var málað upp í aðdraganda kosninga.

Virðulegi forseti. Í kjölfar kosninganna komu fulltrúar Framsóknarflokksins fram og sögðu okkur að þetta væri allt saman til, planið væri til í excel-skjali. Sá sem það sagði í Klinkinu er núna formaður nefndarinnar sem koma á með tillögur um skuldaniðurfærslur. Það er algjörlega ljóst, miðað við þann tíma sem sú nefnd hefur þurft að taka sér og miðað við að excel-skjalið með lausninni er tilbúið, að málið er ekki svo einfalt að það passi inn í eitt excel-skjal vegna þess að það eru lög í landinu. Við þurfum líka að lúta alþjóðlegum skuldbindingum og öðrum slíkum þáttum sem þarf til að reka samfélag í alþjóðlegu samhengi. Málið er því ekki og hefur aldrei verið jafn einfalt og menn gátu haldið í síðustu kosningabaráttu. Sú staðreynd kristallast þó hér í þessari umræðu, það kemur mjög skýrt fram.

Virðulegi forseti. Ég sagði að á síðasta kjörtímabili hefði okkur í þáverandi ríkisstjórn langað til að gera miklu meira en við náðum að gera. Það skal sagt algjörlega einlægt. Við lögðum mjög mikla áherslu á að leiðrétta skuldir heimilanna samhliða því sem við vorum að reisa efnahagskerfið hér úr rústum. Við náðum þó það langt að um 200 milljarðar fóru til skuldugra heimila á síðasta kjörtímabili, en það var ekki nóg. Við erum sammála núverandi ríkisstjórn um að hópurinn sem keypti á versta tíma á enn eftir að fá meiri stuðning. En ekkert er talað um lánsveðshópinn af hálfu forsætisráðherra.

Við vorum komin með niðurstöðu í lok síðasta kjörtímabils í málefnum þess hóps en núverandi ríkisstjórn minnist aldrei á hann. Það er hópur sem verður að tala við og sem verður að koma til móts við. Svo verð ég líka að nefna þann hóp sem er hjá Íbúðalánasjóði, 110%-leiðin gekk ekki nándar nærri því eins langt hjá Íbúðalánasjóði og öðrum fjármálastofnunum. Við vitum að lántakendur hjá Íbúðalánasjóði þurfa margir hverjir að fá stöðu sína bætta. Það er algjörlega ljóst að menn eru hér búnir að átta sig á því að það sem verið er að gera er framhald af þeirri vinnu sem unnin hefur verið. Við skulum bara tala um þetta þannig, við skulum vera heiðarleg gagnvart hvert öðru. Hæstv. forsætisráðherra kallar eftir sanngirni í pólitískri umræðu, hún verður þá að vera á báða bóga. Hann getur ekki bara óskað eftir sanngirni í sinn garð, hann þarf líka að vera sanngjarn í garð annarra. Við erum tilbúin til að vinna að þessum málum áfram en þá verðum við líka að fara að fá eitthvað handfast til þess að ræða, (Forseti hringir.) einhverjar útfærslur og einhverja niðurstöðu (Forseti hringir.) úr þessari vinnu allri saman (Forseti hringir.) eða hreinlega aðgang að henni.