143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:02]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir þessa skýrslu og öðrum hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls fyrir að mestu málefnalega umræðu sem hefur verið góð yfirferð yfir stöðu mála. Það er alveg hárrétt sem hefur komið fram að mjög margt var gert á síðasta kjörtímabili og fyrir það ber að þakka en það má líka líta til þess hvernig það virkaði. Hefði mögulega verið hægt að nota þá 100 milljarða eitthvað betur sem fóru í vaxtabótakerfi, eins og fram kom áðan hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni? Hefði mátt skilgreina þær aukavaxtabætur sem fólk fékk, beint inn á lánin þannig að lánin hefðu raunverulega lækkað en ekki farið út í neysluna og hækkað lánin enn frekar? Það er það sem við verðum að skoða. Hvernig virka lausnirnar? Hvaða áhrif hafa þær og hvernig nýtast þær fólki best? Það er það sem núverandi ríkisstjórn er að gera. Hún er að vinna málið þannig að þetta komi sem best út, hún reynir að nýta fjármunina með markvissum hætti, eins og hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir gerði kröfu um áðan.

Það er verkefnið. Það er verkefni okkar þingmanna að gera það með ábyrgum hætti. En það er líka rétt sem komið hefur fram í umræðunni, þetta snýst ekki bara um skuldaleiðréttinguna sjálfa, þetta snýst um fjármál heimilanna allra, sama hverrar tegundar þau eru. Við þurfum að gera þetta þannig að hér sé heilbrigt heimilislíf og húsnæðiskerfið sé gott.

Í kosningabaráttunni var mikið rætt um margar tillögur og markmið. Markmiðin voru misjafnlega mikið útfærð. Við sjálfstæðismenn lögðum mesta áherslu á að aðstoða heimilin og að allt húsnæðismálakerfið væri tengt skattkerfinu. Við töldum tillögur okkar í leiðréttingu skuldanna vera skynsamlegar af því að þær eru almennar og fara í gegnum skattkerfið. Þannig er jafnræði tryggt og ekki er verið að mismuna eftir efnahag eða öðru. Þetta er mjög gagnsætt kerfi sem hægt er að koma á fljótt. Það tekur líka á framtíð húsnæðiskerfisins sem við höfum rætt í dag, þ.e. við viljum hvetja fólk til þess að spara fyrir sínu fyrsta húsnæði. Það er líka hægt að nota þá leið til þess að hjálpa þeim sem misst hafa heimili sitt til þess að safna fyrir því að nýju með því að fá að leggja hluta af skattgjöldum sínum inn á sérstakan húsnæðissparnaðarreikning.

Þessar tillögur ásamt tillögum Framsóknarflokksins og tillögum Hægri grænna fóru allar inn í stjórnarsáttmálann sem áætlun um hvernig vinna á að skuldamálum heimilanna. Það kemur mér því á óvart að stjórnarminnihlutinn komi hér og kvarti undan því að hann hafi ekki verið með í ráðum. Ef stjórnarandstæðingar hefðu einhverjar tillögur í kosningabaráttunni þá býst ég við að þær væru hér, (Gripið fram í.) en þeir sögðu: Við teljum ekki rétt að fara í skuldaleiðréttingu. Eftir kosningar var útbúinn stjórnarsáttmáli sem hæstv. ríkisstjórn vinnur eftir og þar er sagt nákvæmlega að standa eigi að við kosningaloforðin, það er tekið á því.

Í stjórnarsáttmálanum stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins.“

Svo segir:

„Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007–2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði.“

Til þess að gera þetta með markvissum hætti er samþykkt þingsályktunartillaga sem er svokölluð aðgerðaáætlun um hvernig þessu markmiði skuli náð. Hún er tímasett og ég sé ekki að við séum enn þá fallin á tíma með hana. Meira að segja hefur margt af henni staðist og er komið í framkvæmd, þannig að ég lít á áhyggjur um að ekkert sé að gerast, að ekki séu komnar fram tillögur og annað, sem áhyggjur af því að hæstv. ríkisstjórn sé að fara eftir því sem hún sagði í kosningunum. Hún er að fara eftir því sem hún sagði í stjórnarsáttmálanum, hún er að fara eftir þeirri þingsályktunartillögu sem hún lagði fram. Þetta er því allt á góðum rekspöl og ég vona að niðurstaðan muni verða jafn góð fyrir heimilin eins og mér sýnist gangurinn í þessari vinnu vera. Þetta mun, eins og ég sagði áðan, verða miklu fjölþættara en einungis skuldaleiðréttingin.

Það stendur einnig í stjórnarsáttmálanum að það eigi að reyna að draga sem mest úr verðtryggðum lánum. Ég ætla að lesa hérna upp úr sáttmálanum, með leyfi forseta:

„Æskilegt er að nýta það tækifæri sem gefst samhliða skuldaleiðréttingu til að breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð.“

Það er nú þegar byrjað að efna þetta með því að breyta stimpilgjaldalögunum. Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði að þetta mundi verða dýrara fyrir ný heimili. Þetta er einungis dýrara fyrir ný heimili ef þau ætla að yfirtaka allt lánið á húsinu. Ef þau taka nýtt lán fyrir nýju heimili er þetta hagstæðara fyrir þau. Við skulum vinna saman að bættum hag heimilanna.