143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð því miður að gera athugasemd við að tíma þingsins sé eytt með þessum hætti í ekki neitt, skýrslugjöf um nákvæmlega ekki neitt. Hér hefur ekkert verið upplýst um umfang aðgerða, tímasetningar, fjárhæðir eða nokkurn skapaðan hlut undir allri þessari umræðu, en þingmenn sem koma heiðarlega að umræðunni og gefa færi á henni gagnrýndir fyrir að koma tómhentir til hennar.

Hér lá engin skýrsla fyrir um hvað ríkisstjórnin hygðist fyrir og í munnlegri skýrslu hæstv. forsætisráðherra kom ekki neitt fram nema það að allt gengi samkvæmt áætlun og verið væri að skrifa frumvarp sem ráðherrann upplýsir hvorki þingið um hvað inniheldur né þjóðina né erlenda aðila sem horfa til efnahagslífs hér og hugsanlegra fjárfestinga. Ég geri alvarlegar athugasemdir við að farið sé svona með tíma þingsins, að hann sé tekinn í skýrslugjöf um ekki neitt og þingmönnum haldið í algjörri óvissu og þjóðinni allri um það hvaða aðgerða eigi að grípa til og hvort eigi yfir höfuð að afnema verðtryggingu eða lækka verðtryggðar skuldir um 20%. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)