143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, sbr. ályktun Alþingis nr. 1/142, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir orð þingflokksformanns Samfylkingarinnar enda voru þingmenn í þingsal sem breyttu plönum sínum til að koma og hlusta á skýrslugjöf hæstv. forsætisráðherra.

Hefðum við vitað að hann ætlaði bara að segja okkur hvað hann væri búinn að bæta mörgum starfshópum við nefndirnar sem hann skipaði einhvern tímann síðsumars, ótrúlega seint miðað við hvað lá á verkefninu, hefðum við kannski ekki verið að æsast í það að sitja hér í tvo tíma og hlusta á þessa eymdarlegu yfirferð hans.

Það eina sem kom fram er að hann er að láta búa til frumvarp í forsætisráðuneytinu út frá tillögum sem liggja ekki enn fyrir og efnahagslegs umfangs þeirra tillagna eða áhrifa þeirra fyrir íslensk heimili var ekki getið í ræðu hæstv. forsætisráðherra. Það er fráleitt (Forseti hringir.) að bjóða okkur upp á að það eigi að heita skýrsla, að segja ekki neitt.