143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

95. mál
[14:44]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að þetta mál fer til umhverfis- og samgöngunefndar. Í 1. gr. er talað um færanlega starfsemi, þ.e. „starfsemi sem eðlis síns vegna er færanleg milli staða“. Þar er fjallað um að hún tengist ekki veitukerfum á komustað og að ekki sé gert ráð fyrir skipulagi eða þörf á byggingarleyfi fyrir slíka starfsemi.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er út frá einu tilteknu atriði sem kom upp ekki alls fyrir löngu, þ.e. þegar settar voru upp vinnubúðir við framkvæmd Vaðlaheiðarganga. Þá kom allt í einu upp að það þyrfti leyfi og jafnvel umhverfismat til að setja niður svona tímabundna starfsemi sem stendur þó yfir í þrjú ár. Ég er ekki alveg með það á reiðum höndum í hvað var vitnað en þetta er held ég breyting sem tók gildi um síðustu áramót ef ég man rétt. Spurning mín til hæstv. ráðherra er örstutt hvað þetta varðar og hún er: Hvernig yrði tekið á slíkum færanlegum starfsstöðvum sem settar eru upp tímabundið en geta verið í tvö, þrjú ár og eru auðvitað miklar og stórar? Þær þurfa ekkert endilega að tengjast veitukerfum á komustað, það gætu verið settar upp rotþrær og vatn tekið úr læk við hliðina o.s.frv. Mundi þetta ákvæði og þessi nýju lög hafa áhrif á slíka starfsemi?