143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

tollalög.

137. mál
[15:04]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ein setning í athugasemdum með lagafrumvarpinu sem ég ætla að vitna í. Hún segir mér nóg um að það eigi ekkert að ræða málið mjög lengi heldur koma því til nefndar, vinna það sem fyrst og klára á Alþingi helst fyrir jól. Setningin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Tilgangurinn er að draga úr hættu á að þeir skili sér í hærra verðlagi til neytenda.“

Þetta er fín ástæða til þess að fara í gegnum málið. Eins og hæstv. ráðherra sagði hafa komið fram vankantar við ákvörðun á tolli þar sem tollar á dýrari vörum verða umtalsvert hærri en á ódýrari vörum, eins og rakið er í dæmi um innflutning á nautakjöti og ákveðnum dýrum vöðvum nautsins en skortur á markaði hefur leitt til hærri tolla. Þetta er praktískt atriði sem er farið í gegnum og vonandi leiðir það til þess að neytendur fá lægra verð á þessari vöru sem þarf af og til að flytja til landsins af því að skortur er á henni.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra ef hann hyggst koma aftur upp í umræðu um frumvarpið að lokinni þessari umræðu. Í síðustu atvinnuveganefnd þegar við vorum að fjalla um þessi lög og gerðum breytingar með lögum nr. 160/2012, skilgreindum við eftir ábendingum frá hagsmunaaðilum hvenær það er skortur. Hvernig hefur það gengið? Síðan bjuggum við til samráðsnefnd eða samráðshóp hagsmunaaðila sem starfaði með ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara.

Gæti hæstv. ráðherra upplýst okkur um hvernig það hefur í raun og veru gengið, hver reynslan er af þeirri breytingu sem við gerðum um að skilgreina betur skort á ákveðnum vörum en ekki öllum? Við getum tekið sem dæmi að við tilgreindum stundum að skortur væri á nautalundum, það gat verið skortur á þeim þótt nóg væri af öðru nautakjöti á markaði.

Ef ráðherra hefur einhverjar reynslusögur að segja þætti mér vænt um að heyra þær við 1. umr. áður en við förum í þetta í atvinnuveganefnd.