143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

140. mál
[15:42]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega umfjöllun um þetta mál. Þetta er góðkunningi okkar sem sátum í atvinnuveganefnd undir ágætu forsæti hv. þm. Kristjáns L. Möllers á síðasta hluta síðasta kjörtímabils. Ein af ástæðum þess að málið var ekki klárað var einmitt sú, eins og fram hefur komið, að menn töldu fulldjarft gengið í ábyrgð á „starfsmanni á plani“ eins og einhvern tímann var talað um. Hér er búið að skýra það og taka það út þannig að það séu fyrst og fremst alvarlegustu brotin sem varða refsiheimildir.

Ég vildi bara koma hingað upp og skýra það — það hefur ítrekað komið upp í sambandi við innflutning á áburði að kadmíuminnihald væri of hátt. Fosfór í heiminum fer sífellt minnkandi og æ erfiðara verður að finna góðar fosfórnámur. Þær eru meira og minna mengaðar og til að mynda af kadmíum. Ísland hefur um langt árabil haft strangari reglur um kadmíuminnihald en flestar aðrar þjóðir. Mig minnir að Finnland og hugsanlega Austurríki, alla vega Finnland, hafi gert sambærilega kröfu og við. En hér áður fyrr, þegar við vorum með Áburðarverksmiðju, held ég að við höfum verið með 1/10 af þessari kröfu sem er núna um 50 mg í kíló fosfórs, en var bara 1/10 af því eða minna, eða 4 mgr.

Við erum að setja hér sérstaka kröfu um að verja okkur gagnvart þessu. Þess vegna er mikilvægt að innflutningsfyrirtækin standist þá kröfu. Þetta er einn liður í því að sýna fram á og viðhalda hreinleika afurða okkar og náttúru með því að halda innihaldi á kadmíum í þvílíku lágmarki.

Ég treysti atvinnuveganefnd vel til að fara yfir þetta með reynslubolta innan borðs sem áður hafa fjallað um þetta mál. Ég treysti því að þetta verði klárað hratt og vel. Eins og hv. atvinnuveganefnd mun sjá, þegar hún fer dýpra ofan í málið, hefur verið tekið tillit til þeirra umsagna sem við töldum þess eðlis að ekki var hægt að afgreiða málið á fyrri þingum.