143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

síldarútvegsnefnd og sjóðir í þágu síldarútvegsins.

146. mál
[16:01]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa yfirferð og að gefa okkur innsýn í hvað stofnanir eru að gera hvað þetta varðar til að vera viðbúnar því ef slíkt gerist aftur vegna þess að síldin er ólíkindaskepna. Hún hvarf af Íslandsmiðum, sumir segja vegna ofveiði og sennilega er það rétt, en hún getur komið aftur með stuttum fyrirvara. Ég trúi því og treysti eftir þessa yfirferð hæstv. ráðherra að verið sé að vinna öfluga áætlun þannig að ef þetta gerist séu menn tilbúnir svo að við sjáum ekki einhver 50 þús. tonn á örfáum dögum fara inn í Kolgrafafjörð og drepast þar, og að ágætar áætlanir séu um að ef þetta gerist megi margir smábátar fara þar inn og veiða og skapa verðmæti úr þessu. Hæstv. ráðherra nefndi útflutningsverðmæti upp á 2 milljarða. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál ef síld að verðmæti 2 milljarðar drepst því að við veiðum samt sem áður áfram okkar magn sem við gefum út og þar með minnkar stofninn.

Það eru náttúrlega til hugsuðir, hönnuðir og snillingar um allt land. Ég hef staldrað mest við hvað margir hugvitsmenn hafa stoppað við það sem ráðherra nefndi loftbólugirðingu. Áætlanir um að loka firðinum við brúna sem kostar 500–600 milljónir held ég að sé svo gott sem óframkvæmanlegt, en einhvers konar útbúnað væri hægt að hengja þarna, loftrör með öflugri loftdælu sem dælir þá loftbólum út vegna þess að gamlir síldarsjómenn segja að síld fari ekki í gegnum loftbólusjó. Það er spurning hvort það sé ekki skjótvirkasta aðgerðin og kannski sú ódýrasta til að vera viðbúin ef þetta gerist á haustinu. Við skulum hafa í huga að það var um áramót og byrjun þessa árs sem þetta gerðist, og það eru tveir mánuðir í áramót.

Ég hvet (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra til að fylgja þessu máli vel eftir, (Forseti hringir.) eins og ég þykist vita að hann sé að gera, og láta skoða þetta atriði sérstaklega.