143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

beiðni þingmanna um upplýsingar.

[15:07]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Oddnýju Harðardóttur og furða mig á viðbrögðum forseta. Í 8. gr. þingskapa segir að hann skuli sjá til þess að störf þingsins séu í samræmi við ákvæði stjórnarskrár, þingskapa og annarra laga. Ég velti því fyrir mér hvert við þingmenn eigum að leita ef ráðuneytin svara ekki fyrirspurnum okkar innan tilskilins tíma með tilgreindum hætti.

Málinu er ekki lokið vegna þess að það kom ekki í þingnefndina á tilskildum tíma. Ég er ekki komin með þessi gögn í hendur þannig að ég veit ekki um hvað málið snýst hvað það varðar, en mér finnst mikilvægt — og í raun óvirðing við þingmenn að til stóð að birta tillögurnar og vinnugögn einungis á vef ráðuneytisins en ekki að láta okkur hafa þau plögg. Það hefur í raun ekki verið gert innan þess tíma sem um er að ræða. Ég spyr hæstv. forseta hvort hann ætli að tryggja að þingmenn fái gögn sem þeir biðja um, meiri hluti á hverjum tíma, þ.e. fjórðungur nefndar hverju sinni. Eða með hvaða hætti eiga þingmenn að leita leiða til að fá (Forseti hringir.) málum svarað ef hæstv. forseti er þess ekki megnugur að beita sér í þessu máli?