143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

beiðni þingmanna um upplýsingar.

[15:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Ég er síðasti maðurinn sem ætlar að gagnrýna það að kallað sé eftir upplýsingum frá framkvæmdarvaldinu í þinginu. Ég þekki það nokkuð vel og það er afskaplega mikilvægt að hv. þingmenn hafi þann rétt, að þeir fylgi honum eftir og mjög mikilvægt að upplýsingar fáist.

Ég átta mig hins vegar ekki alveg á vandamálinu hér. Hér eru allar upplýsingar komnar á borðið, þær eru á veraldarvefnum, þetta er komið til hv. þingmanna. Ég leyfi mér rétt að vona að við ræðum þessar niðurstöður. Ég ætla ekki að fara að bera þetta saman við ýmsar þrautagöngur sem maður stóð í hér áður fyrr til að fá upplýsingar sem manni þótti sjálfsagt og eðlilegt að hefði verið komið fram með.

Þegar hv. þingmenn eru með allt í höndunum og tala um einhverjar mínútur til eða frá verð ég að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því máli.