143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

beiðni þingmanna um upplýsingar.

[15:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir hvert orð sem hv. þm. Róbert Marshall sagði. Þetta er dálítið furðuleg umræða, eins og þingmaðurinn orðaði það réttilega. Nú er klukkan orðin korter yfir þrjú, nú hafa tillögurnar legið á vef forsætisráðuneytisins í korter.

Úr því að hér var farið yfir það að ég sem formaður fjárlaganefndar hefði sýnt linkind eða á einhvern annan hátt ankannaleg vinnubrögð í þessari vinnu vil ég benda hæstv. forseta á að þegar beiðni kom frá stjórnarandstöðunni til fjárlaganefndar um að senda beiðni til forsætisráðuneytisins um að þessum tillögum yrði komið formlega til fjárlaganefndar varð ég strax við því. Það liðu ekki nema tíu mínútur, þá var bréfið tilbúið, undirritað af mér sem formanni fjárlaganefndar og farið til forsætisráðuneytisins. Við skulum því vera alveg róleg yfir þessu öllu.

Ég tel, virðulegi forseti, að það hafi verið rétt staðið að þessum málum frá A til Ö.