143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

makrílveiðar.

[15:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar hvað varðar kvótasetningu nýrra fiskveiðitegunda. Við sáum í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi hæstv. sjávarútvegsráðherra kynna okkur það að nú stæði til að úthluta kvótum í makríl og það ætti að gera á grundvelli veiðireynslu síðustu ára.

Við vitum öll hvernig árar í ríkisbúskapnum. Við vitum að stjórnvöld þurfa að hafa allar klær úti til að tryggja tekjur í ríkissjóð. En þegar horft er á kvótasetningu í makríl hefur engin útgerð skuldsett sig til að kaupa kvóta í makríl. Sterkustu rökin fyrir því að byggja á veiðireynslu eru því ekki fyrir hendi í því tilviki. Hér er um nýja tegund að ræða sem hefur synt hingað að landinu.

Það liggur í augum uppi að við þurfum á öllum tekjum að halda sem við mögulega getum fengið í ríkissjóð. Því vaknar sú spurning hvort ekki sé eðlilegast við þær aðstæður að halda a.m.k. hluta makrílkvótans eftir og úthluta honum á grundvelli uppboðs, fella hann inn í kvótaþing þannig að allar útgerðir geti sótt í hann og ríkið fengið leigugjald fyrir þann kvóta.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig honum lítist á þá hugmynd hvort ekki sé einsýnt við þessar aðstæður, þar sem ekki er um að ræða tegund sem sögulega hefur verið í miklum mæli hér við land og enginn hefðarréttur hefur í reynd áunnist í krafti kvótakaupa á fyrri tíð, að eðlilegt sé og sanngjarnt að ríkið tæki til sín a.m.k. þó ekki væri nema hluta þess kvóta sem nú stendur til að úthluta án endurgjalds til þeirra sem hafa verið að veiða síðustu ár.