143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

makrílveiðar.

[15:24]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þessar spurningar hv. þingmanns eru dálítið furðulegar. Í fyrsta lagi virðist hv. þingmaður vilja koma á sérstöku fiskveiðistjórnarkerfi fyrir hverja og eina tegund, sem ég held að yrði afskaplega óheppilegt og óskilvirkt kerfi, og því til viðbótar virðist hann vilja að ríkisstjórnin fari gegn gildandi lögum í landinu. Undarlegast af öllu er þó að hv. þingmaður skuli koma hingað og segja að núverandi ríkisstjórn geti ekki staðið í ístaðinu og aflað allra þeirra tekna sem tækifæri séu til og nefnir makrílinn sérstaklega sem dæmi.

Hvernig var þetta í tíð síðustu ríkisstjórnar? Það er ekki það langt síðan hún lauk störfum að hv. þingmaður geti verið búinn að gleyma því. Síðasta ríkisstjórn úthlutaði heildarkvóta — og hvað rukkaði hún mikið fyrir? Hvað innheimti síðasta ríkisstjórn mikið fyrir heimildir til að veiða makríl?

Svo kemur hv. þingmaður hér og sakar nýja ríkisstjórn um að treysta sér ekki til að standa í ístaðinu og (Forseti hringir.) innheimta tekjur af sjávarútvegi þegar tekjur af sjávarútvegi eru að ná nýju hámarki í sögu landsins.