143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

skuldamál heimilanna.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að tímasetningar muni standast í þessu efni. Hv. þingmanni er óhætt að gera ráð fyrir því. Það kann líka vel að vera að menn vilji setja hv. þingmann og aðra hv. þingmenn inn í málið áður en það verður kynnt.

Eins og ég hef hins vegar oft komið inn á í umræðum um þessi mál þá er mikilvægt að hafa það í huga að hér er um að ræða útfærslu á tiltekinni stefnu, þ.e. útfærslu á framkvæmd tiltekinnar stefnu. Í þessari vinnu var aldrei lagt upp með það að ná einhvers konar heildarsamkomulagi milli allra flokka á Alþingi enda var tekist á um þetta mál í kosningabaráttunni. Síðan lá fyrir ákveðin niðurstaða við stjórnarmyndun og markmið þessarar vinnu er einfaldlega að útfæra framkvæmd þeirrar vinnu.