143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

framganga lögreglunnar gegn mótmælendum í Gálgahrauni.

[15:43]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Mér, líkt og öðrum, þykir auðvitað alltaf miður þegar þarf að blanda sér í mál með þessum hætti. Það breytir engu um það að við búum í réttarríki þar sem löglega teknar ákvarðanir skulu fram ganga og lögregla þarf stundum að blanda sér í það. Ég minni líka hv. þingmann á að í þeirri skýrslu sem vitnað er til hér kemur einmitt mjög skýrt fram vilji lögreglunnar til að gera eins vel og mögulegt er gagnvart almenningi. Nýleg könnun á trausti til lögreglunnar í landinu sýnir að 77% almennings bera traust til lögreglunnar. Mér finnst það ekki bera vitni um að menn telji að lögreglan sinni ekki hlutverki sínu vel.

Mér finnst lögreglan yfirleitt takast á við verkefnin af mikilli yfirvegun og sanngirni en auðvitað þarf hún oft að gera hluti sem er miður að þurfa að gera. Í þessu tilviki þurfti að ganga til þessa verks til að tryggja að framkvæmdin næði fram að ganga. Það er miður að þurft hafi að gera það en ég tel að lögreglan hafi gert það eins vel og mögulegt var við erfiðar aðstæður.