143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs.

123. mál
[15:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Að frátöldu því að ganga í Evrópusambandið eru þrjár leiðir sem við getum farið til þess að hafa áhrif á ákvarðanir þess sem varða hagsmuni okkar. Hina fyrstu hefur hæstv. ráðherra þegar tekið, þ.e. hann hefur barist fyrir og fengið, a.m.k. inn í fjárlagafrumvarp, aukið fjármagn til að efla sérfræðilegt atgervi sendiráðsins í Brussel, það er þarft.

Í öðru lagi vísa ég til þess að breytingar sem hafa orðið á Evrópusambandinu frá því að við urðum aðilar að EES-samningnum hafa leitt til þess að Evrópuþingið hefur síðasta orðið ef í odda skerst á millum annars vegar þess og hins vegar ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar. Ég tel þess vegna, eins og hæstv. ráðherra gat um í sinni ágætu ræðu hér áðan, mikilvægt að þingið hafi fulltrúa gagnvart Evrópuþinginu.

Ég er sömuleiðis þeirrar skoðunar að þingflokkarnir eigi að íhuga það að festa tengsl sín við systurþingflokkana á Evrópuþinginu betur og hafa þar seturétt. Ef í odda skerst fyrir hagsmuni Íslands munu þeir alltaf standa saman og þess vegna geta unnið að hagsmunum Íslands innan allra þingflokkanna sem þar sitja.