143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs.

123. mál
[16:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra Gunnari Braga Sveinssyni fyrir svör hans og get lýst þeirri skoðun minni að ég er algerlega sammála því sem kom fram í máli hans, um það með hvaða hætti unnið hefði verið að því að efla hagsmunagæslu Íslands. Það er auðvitað kunnara en frá þurfi að segja að það eru mjög miklir hagsmunir í húfi fyrir okkur að geta fylgst með því á byrjunarstigi hverju verið er að vinna að í löggjöf og öðru slíku á vettvangi Evrópusamstarfsins sem síðan mun verða tekið upp í íslenska löggjöf. Því að það er á því stigi sem hægt er að hafa áhrif á það hvernig löggjöfin, eða tilskipanir og annað slíkt, muni líta út þegar á hólminn er komið. Þess vegna er mjög mikilvægt að við sameinumst um að bæta og efla þessa hagsmunagæslu.

Það er líka rétt, sem hæstv. ráðherra gat um, að staða Evrópuþingsins hefur styrkst á undanförnum árum innan Evrópusambandsins og þar með áhrif þess á löggjöf sem við tökum upp. Þar eru möguleikar okkar ekki með sama hætti og gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þessu þarf að huga að og þetta þarf að bæta.

Ég er sammála hæstv. ráðherra um að mikilvægt sé að huga að því að Alþingi efli hagsmunagæslu í Evrópusamstarfi. Ég tel mikilvægt að nú þegar hæstv. ráðherra leggur fram í fjárlagafrumvarpi tillögu um að efla þessa starfsemi á vettvangi framkvæmdarvaldsins þá sé það einnig gert í fjárlaganefndinni sjálfri, að því er varðar Alþingi. Ég tel mig vita að Alþingi sjálft hafi ekki gert tillögur í þessa veru í fjárlagagerð fyrir árið 2014 en þetta er hluti sem að sjálfsögðu þarf að huga að þó að það falli kannski ekki alveg í kramið og sé í samræmi við hinar mjög svo eftirsóttu hagræðingartillögur sem mér skilst að séu komnar á vefinn einhvers staðar. En þetta er engu að síður (Forseti hringir.) mikið hagsmunamál fyrir okkur og maður verður auðvitað að meta hagsmuni sína í þessu efni eins og öðru.