143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

Dettifossvegur.

99. mál
[16:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og þingmanni fyrir að taka þetta mál upp. Ég þarf svo sem ekki miklu að bæta við það sem hv. þm. Kristján Möller nefndi varðandi forsögu málsins og mikilvægi þess. Ég get tekið undir hvert orð sem þingmaðurinn sagði í því sambandi.

Hins vegar lúta spurningarnar að því hvers vegna ekki sé búið að bjóða út framkvæmdir við seinni hluta Dettifossvegar og hvenær sé fyrirhugað að bjóða verkið út.

Þá er í upphafi rétt að geta þess að unnið var við verkhönnun og undirbúning við síðari hluta Dettifossvegar veturinn 2012–2013. Undirbúningur, hönnun og leyfisveitingar reyndust umfangsmeiri og tímafrekari en ráð var fyrir gert í upphaflegum áætlunum. Vinna við verklýsingu varðandi frágang raskaðra svæða varð einnig tímafrekari og umfangsmeiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og þurfti að vinnast í mjög nánu samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð. Að auki bættist það við, eins og við þekkjum öll, að skylt er að auglýsa framkvæmdina á Evrópska efnahagssvæðinu og þar sem hefðu liðið þá að lágmarki tveir til þrír mánuðir frá því útboðið hefði verið auglýst og þar til hægt var að semja við verktaka var það mat framkvæmdaraðila á svæðinu — því þá var komið undir lok júní — að betra væri að bíða með útboðið og betra að bíða með verkefnið eða klára að ganga frá því af því að besti framkvæmdatími ársins væri í raun og veru liðinn og lítið yrði um framkvæmdir þar á þeim tíma sem tæki þá við. Þess vegna var ákvörðun tekin í lok júní um að fresta útboði þar til í vetur með það í huga að hægt yrði að hefja framkvæmdir næsta vor.

Síðan spyr hv. þingmaður um hvenær sé fyrirhugað að bjóða verkið út. Eins og ég hef nefnt var þessi ákvörðun tekin um að fresta útboðinu og miða við það að útboðið færi í gang í vetur til að tryggt væri að framkvæmdir gætu hafist á vormánuðum. En rétt er að geta þess að nú vinnur samgönguráð að endurskoðun á fjögurra ára samgönguáætlun og gert er ráð fyrir að tillögur ráðsins verði kynntar innanríkisráðherra fyrir árslok. Ég get því ekki gert nákvæmlega grein fyrir því hér hvenær þetta verk verður boðið út. Það var eins og ég sagði áðan fyrirhugað í vetur. Síðan er auðvitað ljóst eins og þingheimur þekkir að fjármagn til framkvæmda og samgönguáætlunar er minna en gert var ráð fyrir. En eins mikill og skýr vilji Alþingis var í þessu sambandi þori ég ekki að fullyrða nákvæmlega hvaða forgangsröðun verður fyrir hendi hjá samgönguráði en það verður lagt fyrir mig fyrir áramót og síðan borið upp hér á Alþingi.

Ég, líkt og hv. þm. Kristján Möller nefndi, tel að þetta verkefni sé mikilvægt. Hugur þingheims og allra stóð auðvitað til að klára verkefnið innan ákveðins tíma og þangað til ekki liggur annað fyrir skulum við vona að það geti tekist.