143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

Dettifossvegur.

99. mál
[16:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Eins og komið hefur fram hafa verkhönnun og undirbúningur tekið aðeins lengri tíma en gert hafði verið ráð fyrir og komið fram í lok júní þegar ákveðið var að fresta útboði. En ég tek það sem fullgilt svar hæstv. ráðherra að verkið verði boðið út í vetur þannig að framkvæmdir geti hafist næsta vor. Ég veit að samgönguáætlun er í endurskoðun en ég hef ekki trú á því að menn séu að hugleiða að taka þetta verk út. Það má eiginlega segja að þetta sé eina stóra verkefnið í almennri vegagerð í Norðausturkjördæmi, settar þessar 600 milljónir inn í ár og sama upphæð á næsta ári.

Eins og hæstv. ráðherra sagði er búið að hanna og fá öll leyfi og búið að eyða töluverðum peningum í þennan seinni hluta. Hér hefur komið fram að verkið verði boðið út í vetur og að verk hefjist að vori. Ég fagna því að svo skuli vera en vara eindregið við því ef einhverjar vangaveltur eru uppi um að fresta því eitthvað frekar.

Eins og ég sagði hér áðan er þetta mjög bagalegt og framkvæmdin var alltaf hugsuð þannig að allur kaflinn yrði unninn þó að það yrði í tveimur áföngum. Þó að ekki hafi verið hægt að bjóða út allan áfangann alla leið árið 2008 þá er mjög mikilvægt að klára þetta verk. Það er mjög bagalegt fyrir ferðaþjónustuna í Kelduhverfi og við Öxarfjörð ef vegurinn verður ekki kláraður. Þetta eru miklar og nauðsynlegar samgöngubætur að þessum dýrðarstað í náttúrunni, vatnsmesta fossi Evrópu. Það hefur komið í ljós að mjög margir ferðamenn snúa við og fara aftur til baka út af því hvernig aðstæður eru núna, sem er auðvitað mjög bagalegt.