143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

löggæsla í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð.

130. mál
[16:19]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Aftur þakka ég hv. þm. Kristjáni Möller fyrir fyrirspurnina og aftur held ég að við séum tiltölulega sammála um áherslur.

Það er nú svo eins og hv. þingmaður fór svo ágætlega yfir að á undanförnum árum hefur orðið umtalsverð skerðing á fjármagni til löggæslu. Mín skoðun er sú að sú skerðing hafi komið hvað verst niður á dreifðari byggðum landsins. Við höfum þess vegna, eins og hv. þingmaður rakti mjög vel, verið að rýna það og skoða og tókum því innan ramma innanríkisráðuneytisins til að tryggja að við mundum geta forgangsraðað í þágu löggæslunnar 500 milljónum sem er ekki einungis tímabundið framlag heldur varanlegt viðbótarframlag til löggæslu.

Öll okkar áhersla næstu mánuði og missiri í málefnum og eflingu löggæslunnar mun byggja á skýrslu þverpólitískrar þingnefndar sem fór fyrir því verkefni á síðasta kjörtímabili og skilaði ef ég man rétt skýrslu um eflingu löggæslunnar í mars sl. þar sem farið var yfir fimm ára plan sem hefði það markmið að bæta og efla löggæsluna. Við munum vinna eftir þeirri skýrslu á næstu mánuðum og missirum.

Í þeirri skýrslu sem ég geri ráð fyrir að þingheimur hafi kynnt sér kemur með mjög kröftugum hætti fram að fyrsta verkefnið í því mikla verkefni, sem er að efla löggæsluna, sé að fjölga lögreglumönnum og lögreglukonum vonandi líka um allt land, það sé stærsta verkefnið. Eftir ferðir mínar um allt land frá því að ég tók við sem innanríkisráðherra er það skoðun mín að þetta fyrsta ár með þessu viðbótarframlagi skulum við einbeita okkur að því að fjölga lögreglumönnum og þar verði fókusinn og forgangsröðunin í þágu landsbyggðarinnar. Ástæðan fyrir því að ég segi það er sú að í því landi sem við búum, strjálbýlu landi, þar sem oft er langt á milli staða er einfaldlega ekki hægt að bjóða almenningi upp á öryggi sem ekki er tryggara en svo að lögreglumenn þurfi að fara um langan veg til að aðstoða fólk við þær aðstæður sem það býr við. Það veldur auðvitað óöryggi á ákveðnum stöðum. Við verðum að tryggja lágmarksþjónustu og þess vegna höfum við verið að forgangsraða í þágu þess.

Stutta svarið við spurningu þingmannsins um hvort uppi séu áform um að fjölga löggæslumönnum í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð er já. Uppi eru áform um það. Ég held að sú nefnd sem er núna fullskipuð af fulltrúum allra þingflokka á Alþingi og mun hefja störf á næstu vikum — henni til stuðnings verður reyndar sérstakt rekstrarteymi á vegum innanríkisráðuneytisins sem hefur nýtt sumarið mjög vel til að greina störf lögreglunnar — fái skýra sýn á öryggis- og þjónustustig, mannafla og fleira þannig að hægt sé að meta þörfina eftir staðsetningu lögreglunnar í landinu og þá sérstaklega á landsbyggðinni eins og ég hef áður nefnt. Sú vinna mun nýtast nefndinni vel og þannig eigi sú þverpólitíska nefnd að geta tekist á við það verkefni að forgangsraða þessu fjármagni. 500 milljónir geta að mínu mati nýst vel í því að ráða fólk og tryggja það að þjónustan verði öflugri vegna þess að ef þetta væri ekki varanlegt viðbótarframlag væri erfiðara fyrir embættin um allt land að fjölga starfsmönnum og starfsfólki. Ég geri því ráð fyrir að þessi þingmannahópur muni eiga náið og gott samstarf við sýslumanninn á Akureyri sem fer með lögreglustjórn í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð þannig að vandað verði til verka þegar fjöldi nauðsynlegra lögreglumanna á svæðinu er metinn.

Ég ítreka að stutta svarið við spurningunni er já. Það eru uppi áform um að fjölga löggæslumönnum í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð líkt og annars staðar á landsbyggðinni þar sem því verður við komið.