143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

Saurbær í Eyjafirði.

131. mál
[16:43]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir fyrirspurnina. Við verðum að sjá hvernig málinu vindur fram, það mun koma í ljós við lok ræðu minnar í hvaða farveg ég beini málinu. Ég ítreka þakkir mínar til sveitunga míns og hv. þingmanns fyrir fyrirspurnina.

Fyrirspurnin var: Hvað er því til fyrirstöðu að samið sé við Eyjafjarðarsveit um ráðstöfun á húsnæði á jörðinni Saurbæ, samanber heimild í fjárlögum?

Þá er til að taka að það mál sem hv. alþingismaður spyr um á sér aðdraganda allt til ársins 2003 og gengur út á að bæjarstæði jarðarinnar Saurbær í Eyjafjarðarsveit verði menningarsetur þar sem torfkirkjan, safn í bæjarhúsum Saurbæjar og gamli þingstaðurinn gegni aðalhlutverki.

Í fyrirspurn hv. alþingismanns er vísað til þess að í fjárlögum 2013 er svonefnd 6. gr. heimild fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið til að semja við Eyjafjarðarsveit um ráðstöfun á húsnæði á jörðinni Saurbær í Eyjafjarðarsveit, eins og kom skilmerkilega fram í fyrirspurn og ræðu hv. þingmanns. Í samræmi við þá heimild hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið lagt til við mennta- og menningarmálaráðuneytið að það taki að sér umsjón með umræddri 7,6 hektara lóð og þeim byggingum sem á henni standa og hefur sent ráðuneytinu drög að samkomulagi þess efnis.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur átt fund um málið með fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Á þeim fundi lýstu embættismenn mennta- og menningarmálaráðuneytisins því viðhorfi að það hefði ekki forsendur til að taka að sér forræði jarðarinnar Saurbær. Til skýringar á þeirri afstöðu skal bent á að markvisst hefur verið unnið að því á undanförnum árum að flytja umsýslu með jörðum og mannvirkjum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, eins og öðrum fagráðuneytum, til Fasteigna ríkissjóðs og fjármála- og efnahagsráðuneytis. Góð reynsla hefur fengist af þeim breytingum og af því að jarðaumsjón og viðhald og umsýsla mannvirkja sé í höndum sérfræðinga á því sviði hjá Fasteignum ríkissjóðs.

Í annan stað er rétt að benda á að með forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 69/2013, sem gefinn var út 23. maí 2013, sem er nú forsetaúrskurður nr. 71/2013, gefinn út 24. maí sama ár, færðust málefni minjasafna, þar með talin málefni Þjóðminjasafn Íslands, frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til forsætisráðuneytisins. Í því samhengi vísa ég til c-liðar 2. töluliðar 1. gr. Í sama forsetaúrskurði færðist umsýsla með fasteignum og jörðum í eigu ríkisins til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og þess má sjá stað í a- og e-lið 3. töluliðar 2. gr.

Með hliðsjón af framangreindri skiptingu málaflokka milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og í ljósi þeirrar staðreyndar að gamla torfkirkjan á Saurbæ tilheyrir húsasafni Þjóðminjasafnsins og að engin mannvirki á jörðinni falla undir forræði mennta- og menningarmálaráðuneytisins liggur fyrir að möguleg samningsgerð við Eyjafjarðarsveit um umsýslu jarðarinnar Saurbær er á hendi fjármála- og efnahagsráðuneytis og mögulega forsætisráðuneytisins vegna þeirra mannvirkja sem þar eru á forræði Þjóðminjasafns Íslands.

Virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmaður sé nokkru nær um hver afstaða mín er til þessa máls.