143. löggjafarþing — 19. fundur,  11. nóv. 2013.

Saurbær í Eyjafirði.

131. mál
[16:49]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvernig sem fer með forræði á málunum verður jörðin auðvitað alltaf heima í héraði, það má nú heita augljóst. Ég get vel skilið allan þann málatilbúnað sem hv. þingmaður hefur haft hér um mikilvægi starfseminnar sem fer fram þar. Hluti af því er uppbygging á menningartengdri ferðaþjónustu sem skiptir verulega miklu máli. Það er því til mikils að vinna að þarna blómstri starfsemi sem best, bæði það safn sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega og gerði ágæt skil og eins önnur starfsemi sem um er að ræða, sú starfsemi á ekki að líða fyrir verkaskiptingu á milli ráðuneyta.

Þetta er þó augljóslega hluti af þjóðmenningunni, af því að oft er úr þessum ræðustóli kallað eftir einhvers konar skilgreiningum á henni. Þegar litið er til þeirrar ræðu sem hv. þingmaður flutti má ljóst vera að forsetaúrskurðurinn sem vitnað var til nær augljóslega yfir þetta mál þannig að forræðið er að hluta til komið inn í forsætisráðuneytið. Hvað varðar aðra umsýslumeðferð á jörðinni sjálfri, sölu hennar o.s.frv., er hún hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að þegar maður les yfir þennan ræðutexta þarf að hugsa sig eilítið um áður en maður áttar sig á því hvað nákvæmlega er átt við. Ég get alveg játað að það tók mig pínulítinn tíma að lesa mig í gegnum textann, en þegar menn hafa farið í gegnum hann er það alveg skýrt; þetta er verkaskiptingin.

Ég óska hv. þingmanni alls hins besta í framhaldi málsins og að honum gangi vel með að koma fyrirspurnum til þeirra ráðherra sem málið varðar.