143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Ég finn mig knúinn til að koma hingað upp undir þessum lið til að ræða aðgengismál fatlaðra í þingsal. Þannig er að nú eru liðnir sex mánuðir frá því að hv. þm. Freyja Haraldsdóttir var kjörin varaþingmaður fyrir Bjarta framtíð og hefur hún í tvígang komið inn á þing. Því miður er ekki enn þá búið að gera ráðstafanir í þingsal til að hún geti ávarpað þingmenn úr ræðustól og þarf hún að gera það úr sæti sínu.

Það er óásættanlegt og nokkuð sem við þurfum að laga. Það er sjálfsögð krafa að hún geti komið til þingsins og farið með sama hætti og aðrir þingmenn án þess að aðstoðarmenn hennar þurfi að skrá sig sérstaklega hér inn.

Ég treysti því og veit reyndar að verið er að vinna í málunum en ég ítreka að það þarf að gera af þunga og festu og tryggja að þau mál séu í lagi. Einu sinni sagði hv. þm. Freyja Haraldsdóttir við mig: Það er samfélagið sem fatlar okkur. Ég hef aldrei skilið það jafn vel og þegar kemur að þessum málum hér í þingsalnum. Nú er það þannig að hún er ekki fyrsti þingmaðurinn sem kemur hingað inn og er í hjólastól og örugglega ekki sá síðasti. Ef hér væri ræðustóll sem allir gætu notað stæðu allir jafnfætis í þeim efnum.

Það þarf ekki endilega að fara í drastískar breytingar á þingsalnum til að geta gert þetta, það eru önnur atriði sem geta komið til móts við þingmenn og breytt stöðu þeirra þannig að þeir standi jafnfætis öðrum í þessu. Það má nefna sem dæmi að hluti umræðna færi einfaldlega fram úr sætum eins og víða tíðkast í öðrum þingum.

Ég ítreka að ég kem ekki hingað upp til að benda sérstaklega á einhvern í þessum efnum, ég gæti alveg eins áfellst sjálfan mig fyrir að hafa ekki ýtt frekar á að þetta væri gert. Þetta er einfaldlega nokkuð sem við þurfum að laga og ég treysti því að forseti muni setja þunga í að gera það.