143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna þeirri ákvörðun hæstv. heilbrigðisráðherra að ákveða að endurskoða fyrri ákvörðun velferðarráðuneytisins um fækkun sjúkrabifreiða. Mikilvægt er að tryggja öryggi þeirra sem búa á landinu og það gerum við meðal annars með góðri grunnþjónustu eins og heilbrigðisþjónustu og öruggri þjónustu sjúkrabifreiða þegar á þarf að halda.

Það vita allir sem vilja vita að mikill niðurskurður hefur orðið í heilbrigðiskerfinu á undanförnum árum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og einnig á landsbyggðinni. Dæmi eru um að færri læknar sinni þjónustu á ýmsum heilbrigðisstofnunum en áður, niðurfærsla hafi orðið á stöðugildum og jafnframt hefur bakvöktum og vaktalínum fækkað. Mikið álag er á starfsmönnum sem sinna heilbrigðisþjónustu og það þekkist því miður allvel að eingöngu einn læknir sé á vakt á stóru svæði heilbrigðisstofnana. Þar sem ástandið þekkist því miður svona er nauðsynlegt að starfsemi sjúkrabifreiða sé tryggð um land allt.

Sjúkraflutningamenn hafa mikla reynslu og þekkingu á sviði bráðameðferðar og margir þeirra hafa nú þegar menntað sig sem neyðarflutningamenn sem gerir þá enn betur undirbúna í að bregðast við við erfiðar aðstæður.

Þar sem mikill niðurskurður hefur orðið í heilbrigðisþjónustu á undanförnum árum er enn mikilvægara að standa vörð um starfsemi sjúkrabifreiða og hverfa frá fyrirhugaðri fækkun.

Það er samt þannig, virðulegur forseti, að komið er að tímamótum. Ekki er hægt að skera meira niður í heilbrigðiskerfinu og við verðum að forgangsraða í þágu þess á öllu landinu. Við þurfum góða og örugga grunnþjónustu og öflugt net sjúkrabifreiða.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta kostar peninga en góð og trygg þjónusta verður að vera til staðar. Ég tel að það skref sem hæstv. heilbrigðisráðherra er að taka með því að endurskoða fækkun sjúkrabifreiða sé skref í rétta átt. Nú bíð ég eftir næstu skrefum, að horfið verði frá niðurskurðaráformum og sameiningaráformum á heilbrigðisstofnunum úti á landi.