143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í dag er Skráargatið opinberlega innleitt á Íslandi og það er fagnaðarefni. Þetta er eins konar hollustumerki sem gefur neytendum til kynna hver hollustan er í ákveðnum vöruflokki.

Forsagan er sú að árið 2005 mælti faghópur sem forsætisráðuneytið skipaði og átti að koma með tillögur um að efla lýðheilsu með upptöku Skráargatsins. Það gerðist ekki neitt.

Í mars 2008 í sendu Neytendasamtökin erindi á ráðherra og stjórnvöld og hvöttu til þess að Skráargatið yrði tekið upp. Þá voru Danir og Norðmenn að innleiða sænska Skráargatið og gera það að samnorrænu merki. Hér gerðist ekki neitt. Neytendasamtökin ítrekuðu erindið 2010 en það barst ekkert svar. Þau ítrekuðu erindið aftur í lok árs 2010 en ekkert gerðist. Neytendasamtökin sendu aftur erindi og hvöttu stjórnvöld til að innleiða merkið eða gefa að minnsta kosti upp af hverju þau vildu ekki innleiða það. Í fjórða skiptið, enn kom ekkert svar, sömdu Neytendasamtökin fréttatilkynningu og bentu á að þetta væri ólíðandi og fjölmiðlar tóku aðeins við sér og umræða varð um málið. Í framhaldinu tók Siv Friðleifsdóttir málið upp á arma sína hér í þinginu. Hún þekkti vel til merkisins vegna reynslu sinnar í Norðurlandasamstarfi og lagði hún fram þingsályktunartillögu sem síðan var samþykkt. Í dag er verið að innleiða merkið.

Mér finnst ástæða til að koma hingað og rifja aðeins upp forsöguna vegna þess að það er skrýtið þegar félagasamtök þurfa að eyða ógnartíma í að sannfæra stjórnvöld um að gera eitthvað sem kemur neytendum til góða og sem er gott fyrir lýðheilsu þjóðarinnar. Ég skil ekki af hverju það líða alltaf mörg ár frá því að einhver hugmynd kemur upp og þangað til hún verður að veruleika.