143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég treysti því að það sé klukkan sem hægar gengur sem gildi — en ég vil nota tækifærið og taka undir með þingflokksformönnum Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins um aðgengi fatlaðra hér í salnum. Það er algert grundvallaratriði að allir alþingismenn hafi sama aðgang að ræðustól þingsins. Það er okkur til vansa að við höfum ekki úr því bætt, enn þá meira vegna þess að hv. þm. Freyja Haraldsdóttir er ekki fyrsti þingmaðurinn sem lendir í þessari aðstöðu. Við höfum því haft mikinn tíma til að laga þetta.

Ég fagna yfirlýsingu forseta um að hér sé von á nýjum ræðustól og vil segja að þó að hann leiddi til þess að gera þyrfti umtalsverðar breytingar á salnum þá væri það sannarlega þess virði. Ég hef sjálfur fengið að njóta þess og finna að hjá forustu og yfirstjórn þingsins er bæði virðing og skilningur á þörfum mínum sem fatlaðs manns og veit að það er ekki skorturinn á því sem hér veldur og hvet til að þau góðu gildi verði sýnd í verki með því að bæta úr þessu og hreinsa okkur af þeim vansa sem forseti svo réttilega kallar.

Ég vil síðan, vegna þeirrar umræðu sem hefur orðið undir liðnum um störf þingsins um störf hagræðingarhópsins og varð hér í gær undir liðnum um fundarstjórn forseta, segja þetta: Fjárlaganefnd Alþingis hefur á grundvelli þingskapalaga óskað eftir öllum gögnum hagræðingarhópsins. Það er augljóslega einhver tregða sem veldur því að forustumenn ríkisstjórnarinnar virðast ekki vilja láta þau gögn af hendi (Gripið fram í: Þetta er bara rangt.) heldur aðeins valinn hluta þeirra. (Gripið fram í: Þetta er ekki rétt.) Ég hvet til þess að menn birti öll þau gögn vegna þess að það vekur auðvitað upp allnokkrar spurningar hversu fréttaflutningur af boðuðu innihaldi þessara tillagna stangast á við það sem í þeim var og ekki laust við að mann renni í grun að ýmsar (Forseti hringir.) ágætar hugmyndir hafi verið uppi á borðum hagræðingarhópsins sem sannarlega ættu erindi í umræðuna. Þess vegna er (Forseti hringir.) nauðsynlegt að fá öll gögnin inn til fjárlaganefndar og það er lögum samkvæmt.