143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég er að velta því fyrir mér eftir að hafa hlustað á hv. þm. Helga Hjörvar hvað sé nákvæmlega á ferðinni. Kannski er það bara þannig að þegar hv. þingmenn fá allar upplýsingar og þær eru settar á veraldarvefinn þá bregður þeim svo mikið að þeir vita ekki hvernig þeir eiga að haga sér. Þeir geta ekki enn þá rætt um efni málsins.

Hvað er hægt að gera meira? Eigum við að setjast niður og lesa upp úr þessum skýrslum fyrir hv. þingmenn? (BirgJ: Endilega.) [Hlátur í þingsal.] Hv. þingmaður segir endilega, hún veit ekki hvað hún er að tala um. Ég get alveg lofað henni því að skýrslurnar eru þannig að þótt ég viti að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir fylgist alla jafnan vel með þyrfti hún að hafa sig alla við til að halda sér vakandi yfir öllum lestrinum þótt efnið sé áhugavert. Hins vegar get ég glaður — því að ég prentaði út stóran hluta þess, ég veit ekki hvort það sé allt saman en þetta er í tveim stórum möppum í bílnum mínum — blaðað í því með hv. þingmönnum ef þeir vilja. Það er ekki nema sjálfsagt.

Varðandi fréttaflutning af hagræðingarmálum sem hefur verið ansi mikill þá veit ég ekki alveg hvernig við eigum að koma því að en það er bara hægt að fara á Google og fletta því upp og spjalla um þessa hluti í kjölfarið.

Ég bið nú hv. þingmenn og sérstaklega hv. þm. Helga Hjörvar að fara að tala um efni málsins, fara að tala um hagræðinguna, um hagræðingartillögurnar. Við skulum ekki eyða dýrmætum tíma þingsins. Ég met það svo að hv. þingmaður hafi verið að gera að gamni sínu áðan til að létta lundina en við verðum samt sem áður að fara að komast í að tala um hagræðinguna og tillögurnar. Ég hvet hv. þm. Helga Hjörvar, sem ég veit að á auðvelt með að komast upp í ræðustól, að fara að gera það.