143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

staða flóttamanna og meðferð þeirra.

[14:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þeir sem vinna að málum flóttafólks og hælisleitenda nefna nokkur mikilvæg atriði sem nauðsynlegt er að vinna að til að bæta stöðu fólksins og þjónustu við það. Fyrst og fremst er afgreiðslutími mála allt of langur. Teygst getur úr þeim tíma sem tekur að ná niðurstöðu þannig að hann telji í árum, eins og kom fram fyrr í umræðunni. Það er óásættanlegt og á því þarf að finna bót.

Annað stórt mál eru sjúkratryggingar. Hælisleitendur þurfa að vera sjúkratryggðir á meðan þeir eru í hælismeðferð. Þeir eiga vissulega rétt á þjónustu en deilt er um hver eigi að bera kostnaðinn. Oftast lendir kostnaðurinn á þeirri stofnun sem veitir heilbrigðisþjónustuna.

Þriðja mikilvæga málið sem ég vil nefna eru menntamál, einkum og sér í lagi menntamál barna hælisleitenda. Kerfið allt byggir á kennitölum og lögheimilum og sveitarfélög eiga ekki annarra kosta völ en að búa til kennitölu fyrir börn til að koma þeim í skóla og inn í kerfið með einhverjum hætti, sem er lykilatriði fyrir velferð barnanna. Ímynd hælisleitenda er frekar neikvæð og hávær sú umræða að þarna séu menn sem eru að leika sér með kerfið og hafa af okkur fé þegar raunin er sú að flestir hælisleitendur eru í mikilli neyð, fólk sem hefur þolað hörmungar og er jafnvel brotið á sál og þarfnast faglegrar leiðbeiningar og lækninga. Aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu skiptir þar miklu máli sem og heilbrigðisþjónustu almennt.

Virðulegi forseti. Við verðum að gera enn betur í þessum málaflokki. Í umbótaáætlunum ættum við að byrja á afgreiðslutímanum, sjúkratryggingunum og aðgengi að heilbrigðisþjónustu ásamt menntun og menntunartækifærum barna hælisleitenda.