143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

staða flóttamanna og meðferð þeirra.

[14:18]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég trúi því að við séum sammála um að allir eigi rétt á því að sækja um og njóta verndar gegn ofsóknum og alvarlegum mannréttindabrotum. Við vitum dæmi þess að stjórnvöld í Evrópu hafi reynt að koma í veg fyrir að fólk nýti sér þennan rétt og það getur haft víðtækar afleiðingar fyrir þá hælisleitendur sem geta lent í mikilli hættu og jafnvel orðið fórnarlömb mansals eða annars ofbeldis. Það er líka vert að halda því til haga að fæstir flóttamenn leita skjóls í Evrópu, þeir leita flestir til nágrannaríkja þar sem gjarnan ríkir fátækt eða jafnvel átök. Við getum til dæmis nefnt lönd eins og Sýrland, Pakistan eða Íran þar sem eru langflestir flóttamenn. Þetta ber að hafa í huga þegar við ræðum krónur og aura.

Ef við berum okkur saman við Dani þá fá 6,5% hæli hér á landi en 29,5% í Danmörku. Það er gott að vita af því að ítarleg vinna er hafin í innanríkisráðuneytinu þar sem gagnrýni á þessi mál hefur verið á einn veg í allt of langan tíma og snýr að málsmeðferð og mannréttindabrotum eins og málshefjandi rakti hér. Stjórnvöld verða að tryggja skjótari afgreiðslu á umsóknum til að koma í veg fyrir þá óvissu og örvæntingu sem allt of margir hælisleitendur finna fyrir. Það er gríðarlega erfitt og mannskemmandi að bíða á milli vonar og ótta mánuðum og jafnvel árum saman enda fá þessir einstaklingar ekki að taka virkan þátt í þjóðfélaginu og vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér.

Afgreiðslutíminn er allt of langur, jafnvel þótt umsækjandinn vinni með stjórnvöldum að úrlausn málsins og geri allt sem í hans valdi stendur til að afla gagna og upplýsinga sem óskað er eftir. Við þurfum að hætta að hafa það nánast fyrir reglu að fangelsa flóttamenn fyrir það eitt að framvísa fölsuðum skilríkjum enda brýtur slíkt líklega í bága við alþjóðlegar skuldbindingar stjórnvalda. Við þurfum líka að hafa í huga að Dyflinnarreglugerðin er leiðbeinandi, hún er ekki fullgild lög og við þurfum ekki að senda hælisleitendur aftur þrátt fyrir að við megum það. Við lendum aldrei í því sjálf að fá hælisleitendur senda aftur hingað til Íslands vegna reglunnar um upphafsstöð vegna þess að Ísland er aldrei fyrsta stoppistöð, enda eyja.

Það breytir því ekki að við erum hluti af umheiminum og eigum að rækja okkar skyldur samkvæmt því. Í lokin vil ég minna á þingsályktunartillögu okkar vinstri grænna (Forseti hringir.) sem tekur á heildarlögum um útlendinga.