143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

staða flóttamanna og meðferð þeirra.

[14:28]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að við séum auðvitað öll sammála um að það þurfi að bæta stöðu hælisleitenda og flóttamanna, bæta þjónustuna og stytta tímann sem það tekur að afgreiða þessi mál, en hv. þm. Birgitta Jónsdóttir var eiginlega að fjalla um allt annað en það. Hér var verið að fjalla um sérstaka lögregluaðgerð og fullyrt í málinu að þar hafi verið brotin einhver mannréttindi og þurfi jafnvel sérstakrar rannsóknar við.

Það liggur auðvitað ekkert fyrir í málinu um að brotin hafi verið mannréttindi. Ég get bent þingmönnum á það að hægt er að bera undir dómstóla rannsóknaraðgerðir lögreglu, hverjar sem þær eru, um réttmæti þeirra, og handteknir menn eiga auðvitað rétt á verjanda til að gæta hagsmuna sinna. Þannig er gangurinn í þessum málum og ég get alveg upplýst ykkur einnig um það, eftir að hafa eytt hálfri ævinni með handteknum mönnum, að þeir telja iðulega að brotið hafi verið á sér við rannsókn mála. Það má vel vera og ég útiloka það ekki eins og hefur oft gerst að lögregla kunni að hafa farið offari en það kemur þá í ljós ef tilefni er til að skoða það.

En ég minni á að lögregla þarf að fá að vinna sín mál. Hún handtekur eingöngu þá sem eru grunaðir, hafa stöðu grunaðs manns, og ætla má að í svona húsleit (Forseti hringir.) þegar farið er inn á heimili manna að það séu (Forseti hringir.) allir með slíka stöðu í byrjun.