143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

staða flóttamanna og meðferð þeirra.

[14:30]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Þetta er auðvitað umfjöllunarefni sem við ættum að gefa okkur langan tíma til að fjalla um vegna þess að það hvernig við búum að útlendingamálum almennt krefst ítarlegrar umræðu, ekki bara á Alþingi heldur í samfélaginu.

Við þurfum sárlega á langtímastefnumótun að halda í þessum málaflokki og þar þarf að takast á við mjög margar spurningar. Þar þarf að takast á við siðferðilegar spurningar. Þar þarf að takast á við spurningar sem snúast um og eiga að byggja á yfirvegun og raunverulegri þekkingu á því sem um ræðir. Við þurfum sárlega á betri heildarlögum um málefni útlendinga að halda.

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Freyju Haraldsdóttur þegar hún vekur máls á því hér að við erum að ræða um hóp af fólki án þess að það sé við borðið. Það er sérlega viðkvæmt þegar um er að ræða valdalausa hópa því að þeir eru útsettari fyrir valdbeitingu og útsettari fyrir að yfir þá sé gengið og fram hjá þeim sé gengið í umfjöllun um líf þeirra og örlög.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson mælti hér á dögunum fyrir tillögu til þingsályktunar sem allur þingflokkur Vinstri grænna er á, um heildarlög um útlendinga. Sú tillaga er nýlega komin til afgreiðslu allsherjar- og menntamálanefndar og var raunar send út til umsagnar í dag. Þar er gert ráð fyrir heildarskoðun á málefnum útlendinga og þeirri löggjöf þar sem farið er yfir alla þætti málsins og byggt á víðtækri vinnu sem fram hefur farið í ráðuneytum og stofnunum undanfarin missiri. Það er þannig sem við þurfum að nálgast þessi mál, (Forseti hringir.) með heildarsýnina undir. Ég vonast auðvitað til þess (Forseti hringir.) að tillagan nái fram að (Forseti hringir.) ganga.