143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

staða flóttamanna og meðferð þeirra.

[14:35]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu og vil þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að taka hana upp hér. Eins þakka ég hæstv. innanríkisráðherra fyrir svörin. Það er ljóst að verið er að vinna í þessum málum. Það sem er kannski mest aðkallandi, eftir að hafa talað við fullt af fólki um þessi mál, er þessi málsmeðferð, að flýta henni, sem er kannski aðalatriðið. Við stöndum okkur ekkert verr en aðrir, miðað við það sem fólk segir við mig, í meðferð á pólitísku flóttafólki. Við verðum að vanda umræðuna í því og passa að tala af hógværð og stillingu um þetta og nota þessa umræðu um leið sem áminningu til okkar um að taka ábyrgð á þessu tiltekna samfélagi og líta á þá ábyrgð sem tækifæri fyrir hælisleitendur, flóttamenn og okkur öll til að auðga landið og gera það betra.

Þannig hafa þjóðir eins og Kanada litið á málin. Ísland hefur í áratugi verið aðili að samningum Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna, en þar kemur fram að mikilvægt sé að viðurkenna að til þess að hægt sé að veita hælisleitendum og flóttafólki griðastað og viðunandi lífskjör þurfi aðildarríkin að vinna saman og dreifa ábyrgð. Með því að gerast aðilar samningsins höfum við gert það, stöndum við hann og gerum það vel. Það er um manneskjur eins og okkur að ræða og það þarf að endurspeglast í öllum okkar ákvörðunum og aðgerðum.