143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

sveitarstjórnarlög.

152. mál
[14:56]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þetta skýrði bakgrunn málsins og að sjálfsögðu tekur maður mark á því ef Samband íslenskra sveitarfélaga ber fram slíka ósk og hefur haft um það samráð við eftirlitsnefndina. Ég áskil mér engu að síður rétt til þess eða fyrir hönd vina og vandamanna að fara ofan í saumana á því hvort til dæmis er endilega skynsamlegast að orða þetta svona frá byrjun, að þetta skuli veitt og það sé skylt í allt að tíu ár frá gildistöku laganna. Mér hefði fundist alveg koma til greina að skoða hvort þarna væri búið til eitthvað styttra aðlögunartímabil innan tímans. Það gefur augaleið að þetta mun þýða að samanburður á stöðu sveitarfélaganna verður ekki alveg jafn gagnsær og einfaldur þegar sum þeirra taka þetta með, þeim sem er það hagstætt eða þau sem eru hlutlaus af áhrifum fyrirtækja af þessu tagi, en hin gera það ekki.

Að sjálfsögðu getur verið viðkvæmt að fjalla um það hér úr ræðustóli Alþingis nákvæmlega hvaða sveitarfélög þetta hefur mest áhrif á. Ég beini því til hv. nefndar að hún fái þá frekari upplýsingar um það og fari yfir það til að öllu sé til haga haldið og ekki sé verið að fara í breytingar af þessu tagi vegna óska frá einu eða tveimur sveitarfélögum heldur sé þetta sæmilega almenns eðlis.

Við fjárhagsvanda einstakra sveitarfélaga, sem er orðinn mikill og illviðráðanlegur af einhverjum sökum, verður að glíma á vettvangi þess sveitarfélags auðvitað en að mínu mati á einnig Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin að sýna samábyrgð við slíkar aðstæður og hefðu jafnvel mátt gera það betur þegar einn af litlu bræðrum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu lenti í miklum hremmingum. Það þýðir ekki að ýta slíku (Forseti hringir.) inn í framtíðina með því að gefa eftir reglur sem eru almennt skynsamlegar og (Forseti hringir.) menn ættu að standa saman um að koma á.