143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[15:14]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka áframhaldandi fjölmargar áhugaverðar spurningar hv. þm. Guðbjarts Hannessonar.

Það eru fjölmargir þættir sem koma til álita þegar taka þarf á slíku máli. Hv. þingmaður spyr: Af hverju núna? Eins og staðan var á síðasta ári tilkynnti þáverandi sjávarútvegsráðherra í upphafi aprílmánaðar, ef ég man rétt, að væntanlega þyrfti að stöðva veiðarnar áður en fiskveiðiárið yrði úti vegna þess að það stefndi í að menn færu langt yfir heimildir. Af hverju gerum við þetta núna? Jú, af nákvæmlega sömu ástæðu, við erum að reyna að koma einhverri stjórn á veiðar sem stefndi í að yrðu stjórnlausar og það mundi þurfa að stöðva veiðarnar miklu fyrr og því miður áður en rækjan yrði auðveldust og dýrmætust fyrir bæði þjóðarbúið og fyrirtækin.

Hv. þingmaður talaði um að ég sendi hér kaldar kveðjur. Ég vona að það megi ekki skilja orð mín þannig heldur hljóta menn einfaldlega að þurfa að spyrja sig þeirrar spurningar hvort veiðarnar séu arðbærar þegar aðilar sem stunda þær óska eftir því og hafa fjallað um það á opinberum vettvangi og víðar að fallið verði frá veiðigjaldi á þessa tegund vegna þess að veiðarnar standi ekki undir því. Þá verður maður auðvitað að spyrja sig hvernig standi á því ef sú staða er uppi. Er það þá ekki meðal annars vegna þess að veiðarnar eru ekki nægilega arðsamar ef menn treysta sér ekki til að standa undir almenna gjaldinu?

Ég tek síðan undir með hv. þingmanni um að það er mikilvægt að við styrkjum byggðir í landinu. Ég kom aðeins inn á það í ræðu minni að þar er verðugt verkefni sem við þurfum að fara að skoða mjög vel. (Forseti hringir.) Ég bendi á að rækjustofninn eins og hann stendur í dag mun ekki einn og sér tryggja það að fjórar eða fimm rækjuvinnslur í landinu geti staðið rekstrarlega undir sér.