143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[15:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég er eins og síðasti ræðumaður sem talaði hér, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, áhugamaður um makríl og út af fyrir sig, fyrst umræðan spinnst þar um, ef hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur upplýsingar um þann deilistofn sem við eigum mikið undir og ef hann telur að það sé í lagi með tilliti til hagsmuna Íslands í stöðu deilunnar að gefa okkur einhverjar upplýsingar yrði það kærkomið. Ég er einn af þeim sem fylgjast spenntir með því máli og get reyndar sagt að mér finnst að hæstv. ráðherra hafi staðið sig vel í því eins og fyrirrennari hans.

Að því er varðar þetta frumvarp er ég þeirrar skoðunar að ekki sé rétt af hæstv. ráðherra að koma hingað og velta vöngum yfir því að aðgerðir eins af fyrri sjávarútvegsráðherrum hafi hugsanlega verið á snið við lög. Ég held að svo sé alls ekki. Mig langar að benda hæstv. ráðherra á að það er vegna þeirrar ákvörðunar sem menn hafa þó farið aftur af töluverðum krafti að sækja í þennan stofn. Eins og hæstv. ráðherra sagði sjálfur í ræðu sinni og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu þá leiddi ákvörðunin til þess að nýir aðilar hafa komið inn í veiðina og veitt töluvert magn. Enn er staðan þannig að stofninn er þrátt fyrir allt á uppleið. Það eru góðar fréttir.

Ég er hins vegar sammála hæstv. ráðherra um að það stefni í að með óbreyttri veiðistjórn kynni þessum stofni að vera hætta búin. Þess vegna tel ég að rétt sé að grípa til þess ráðs að kvótasetja stofninn. Ég er sammála honum um það. Gleymum því ekki að í upphafi kvótakerfisins var meginmarkmiðið að koma í veg fyrir að við gengjum svo nærri auðlindum hafsins að tegundum og stofnum væri hætta búin. Við skulum heldur ekki gleyma því að veiðarnar á þessum stofni höfðu ekkert að gera með frumkvæði af hálfu ríkisins. Það voru miklir athafnamenn og frumkvöðlar sem lögðu allt sitt undir, reyndar menn úr kjördæmi hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar á Dalvík, sem fyrstir fóru að sækja í þetta einhvern tíma í lok sjöunda eða byrjun áttunda áratugarins með miklum tilkostnaði og litlum árangri til að byrja með. Þetta voru menn sem lögðu allt sitt undir, lærðu á veiðarnar, brutu okkur brautina til að geta nýtt þennan stofn sem leiddi til þess að þegar veiðarnar stóðu á hápunkti held ég að menn hafi verið að veiða 60–70 þúsund tonn. Það var heldur betur búhnykkur fyrir Ísland.

Þetta segi ég vegna þess að ég tel að sú ákvörðun sem fyrri sjávarútvegsráðherra tók með því að gefa de facto frjálsar veiðar hafi verið eðlileg á þeim tíma og hafi leitt til þess að aukin verðmæti hafi komið inn í samfélagið. Ég kem þó aftur að því sem ég sagði. Staðan sem við horfum framan í er þannig að reisa þarf skorður við óheppilegri sókn. Ég er sammála hæstv. ráðherra um það.

Það sem ég er ósáttur við í þessu frumvarpi er skiptingin, þ.e. skiptingin 70:30. Þar með er ekki útilokað að ég kynni ekki að verða sammála hæstv. ráðherra en ég þarf þá rökin og rökin fyrir skiptingunni komu ekki fram í máli hæstv. ráðherra, ekki heldur í svari hans við beinni spurningu um þetta atriði frá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni og það er ekki eitt einasta orð að finna um þetta í greinargerð með frumvarpinu.

Þeir sem þekkja til á þeim stöðum þar sem verið er að nýta afrakstur þessara veiða halda því fram að það geti leitt til þess að 100 manns verði sagt upp störfum á Ísafirði. Þá staldra ég við og spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur hann skoðað hvaða afleiðingar það kann að hafa að fara þessa leið? Sömuleiðis spyr ég hæstv. ráðherra: Hver eru rökin fyrir því að láta þá sem hafa á síðustu þremur árum verið að sækja með frjálsum hætti í þennan stofn fá einungis 30% en þá sem höfðu aflahlutdeild áður en sú ákvörðun var tekin fá 70%? Mér finnst að hæstv. ráðherra geti ekki ætlast til þess að menn eins og ég sem eru krítískir á þetta kaupi það og kokgleypi án þess að hann að minnsta kosti geri tilraun til að útskýra þá skiptingu. Ég er reiðubúinn til að hlusta á röksemdir ráðherrans en fram að því get ég sagt honum að ég mun ekki greiða þessu atkvæði og hugsanlega andmæla því að vestfirskum hætti.