143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[16:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið vildi ég að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefði kveðið þennan tón þegar þáverandi hæstv. ráðherra Jón Bjarnason gaf þessar veiðar frjálsar, að það hefði verið skoðað hvaða áhrif það hefði á þau fyrirtæki sem þó voru að basla í þessari grein, það yrði skoðað alveg sérstaklega hvaða stórkostlegu áhrif það gæti haft að kippa frá þeim möguleikanum á að veiða á þeim tíma þegar mestu verðmætin (ÖS: Ráðherra …) fengust fyrir afurðirnar, taka þau verðmæti frá þjóðarbúinu. Það var margítrekað komið inn á þetta og þetta skýrt út. Hæstv. fyrrverandi ráðherra talaði ekki með þessum hætti á þeim tíma, að menn ættu að sýna einhverja ábyrgð.

Í dag eru aðstæðurnar þær með þessum ólympísku veiðum að það gengur einfaldlega ekki upp og það verður að grípa til aðgerða.

Hvernig ætlum við þá að feta þennan stíg? Ætlum við að binda þetta eingöngu við veiðireynslu þeirra sem hafa tekið aflann á síðustu þremur árum eða ætlum við að skipta þessu þannig að menn fái hluta af kökunni fyrir þá veiðireynslu sem hefur verið á síðustu árum og hluta af kökunni fyrir þá veiðireynslu sem þeir sköpuðu til lengri tíma? Það er einhver málamiðlun í því fólgin. Það er alveg augljóst hvernig ráðherrann reynir að mæta sjónarmiðum beggja í þessu við mjög erfiðar aðstæður.

Ég er alveg sannfærður um að þessi tillaga, 70:30, er engin tilviljun. Hún er sett fram eftir að legið hefur verið eitthvað yfir þessu í ráðuneytinu. Vandamálin eru augljós eftir sem áður og munu ekki fara frá okkur þó að við afgreiðum þetta frumvarp, (Forseti hringir.) með hvaða hætti sem það verður gert. Vandamálin verða kannski mildust með þessari leið.