143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[16:23]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segir að það hafi ekki verið vandamál að fá aflaheimildir hér áður fyrr. Hæstv. ráðherra notaði einmitt þennan rökstuðning í máli sínu, að það hefði ekki verið auðvelt að fá aflaheimildir og að menn hefðu ekki nýtt rækjukvótann á þeim tíma vegna þess að ekki hefði verið auðvelt að færa það til. Þetta er hluti af því sem atvinnumálanefnd verður að skoða.

Varðandi markmiðin í sjávarútvegi er það alveg rétt að markmiðið með kvótasetningunni á sínum tíma var að auka hagræðingu og settar voru ýmsar reglur til að fækka frystihúsum og skipum og öðru slíku. En það má heldur ekki gleyma því að auk þess að reka hagkvæman sjávarútveg voru sett byggðamarkmið, algjörlega skýr. Það voru líka sett algjörlega skýr ákvæði um hverjir eiga auðlindina og eiga að njóta arðs af henni. Það er líka í þessum markmiðum í lögunum frá 2006 sem mér finnst skipta miklu máli.

Ég hef sjálfur talað gegn því að menn handstýri mjög mikið, eða hafi það sem við kölluðum stundum okkar á milli töskukvóta, að stjórnvöld séu að handstýra atvinnugrein eins og sjávarútvegi. Einhverra hluta vegna hefur það verið gert að mörgu leyti. Mér heyrist á hv. þingmanni að hann hallist svolítið að því að hafa vit fyrir mönnum með ákveðinni handstýringu. Það stangast á við mín grundvallarsjónarmið. Ég held að við eigum að búa til heilbrigt umhverfi þar sem gætt er jafnræðis, jafnræðis gagnvart heimildinni til að stunda vinnu og að auðlindum og reyna svo að hafa ríkisafskiptin sem allra minnst. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann deili ekki því sjónarmiði almennt, með þá lífsskoðun sem oft hefur nú verið kynnt í tengslum við hans flokk.

Varðandi það hvort veiðigjald — af því að það kom fram fyrr í umræðunni að uppboð stangist á við töku veiðigjalds, þá tel ég það engan veginn vera. Við erum annars vegar að tala um nýjar tegundir, við erum að tala um hvernig við úthlutum nýjum auðlindum í samfélagi okkar, hvort sem er í sjávarútvegi eða öðru — þá þurfum við að finna leiðir til þess að gæta jafnræðis.

Bara að lokum, af því við erum að ræða tímabil frá síðustu ríkisstjórn, langar mig að spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) — hann veit svo mikið um sjávarútveg: Hver eru bestu tímabilin (Forseti hringir.) síðan kvótakerfið komst á, frá 1990? Hverjir voru við (Forseti hringir.) stjórnvölinn þegar besta afkoman var í sjávarútvegi á þessum tíma?