143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[16:32]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að fara í andsvar við hv. þingmann en gat ekki á mér setið vegna þess að hv. þingmaður talar um að á síðasta árinu, áður en rækjuveiðar voru gefnar frjálsar, þ.e. 2009/2010, hafi næstum því allur afli náðst.

Í frumvarpi hæstv. ráðherra segir þar sem verið er að ræða um fréttatilkynningu frá 10. júlí 2009 að fyrir fiskveiðiárið 2009/2010 hafi verið upplýst að þáverandi ráðherra hefði, með leyfi forseta, „ákveðið að beita sér fyrir lagabreytingu í þá veru að auka veiðiskyldu og takmarka flutningsrétt aflamarks í úthafsrækju á milli fiskveiðiára og milli fiskiskipa, einkum með tilliti til þess að flutningur milli skipa verði ekki notaður til að auka framsalsrétt í öðrum tegundum frá þeim skipum sem aflamarkið er flutt til“.

Svo kemur, virðulegi forseti, og þetta eru gögn úr ráðuneytinu:

„Að líkum má leiða að þessi fréttatilkynning hafi ýtt undir veiðar, en fiskveiðiárið 2009/2010 jukust þær umtalsvert frá fyrra ári.“

Í töflu á bls. 3 sést að veiðiráðgjöf í úthafsrækju var 7 þús. tonn en aflinn 6.300 tonn. Og hér segir ráðuneytið að fréttatilkynning hafi orðið til þess. Árið þar á undan, 2008/2009, var veiðiráðgjöf í úthafsrækju 7 þús. tonn en þá voru bara veidd 3.200 tonn. Árið þar á undan, 2007/2008, var veiðiráðgjöfin 7 þús. tonn en þá voru aðeins veidd 1.300 tonn. Það er því ekki alveg rétt hjá hv. þingmanni að fullyrða, eins og hann gerir hér, að síðasta árið hafi næstum því allur aflinn náðst. Að mati ráðuneytisins, eins og kemur fram í greinargerð, var það vegna þessarar fréttatilkynningar og vegna áforma fyrrverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóns Bjarnasonar.