143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[16:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka mjög málefnalega umræðu sem hér hefur farið fram. Þótt tekist hafi verið á um ólíka hagsmuni finnst mér umræðan bera vott um það. Ég verð að segja eins og er að sú bjargfasta trú mín að hægt sé að ná jákvæðri niðurstöðu og sátt um sjávarútvegsmál hefur frekar vaxið við þessa umræðu vegna þess að menn hafa tekist á um ólíka hagsmuni, ólíka nálgun, ólíka pólitíska sýn og gert það málefnalega og yfirvegað. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá umræðu.

Ég er líka ánægður með að heyra þann tón sem hefur verið sleginn af öllum sem hér hafa tekið til máls. Allir eru sammála — ég lýsi því auðvitað yfir að það er ráðherra einnig og ríkisstjórn — um að við stundum ábyrgar veiðar byggðar á sjálfbærri nýtingu. Þess vegna er mikilvægt að við höfum stjórn á öllum stofnum, sérstaklega þeim sem stefnir í ofveiði á.

Ég líka lýsi yfir ánægju minni yfir að samhljómur er milli manna og þeir hafa skilning á því að við nokkra erfiðleika sé að etja að leysa mál úr þeim viðjum sem það var komið í.

Ég lýsti því yfir hérna í framsögu minni að ég teldi mikilvægt að við veltum okkur ekki endilega mikið upp úr því hvernig slík ákvörðun var tekin, heldur yrðum við að horfa til framtíðarinnar þegar við leituðum úrlausna í þessu máli. Það er einfaldlega þannig að þegar við gerum það verður umræðan á einhvern hátt málefnalegri.

Ég verð þó að nefna að það kerfi sem við höfum byggir á sveigjanleika. Það er best að geta þess hér að í skýrslu Hafrannsóknastofnunar er yfirlit yfir til að mynda rækjuveiðar og ráðgjöf síðustu áratuga. Við vorum hérna á níunda áratugnum að veiða milli 20 og 35 þús. tonn og undir lok síðustu aldar vorum við farin að veiða upp undir 60, 70 þús. tonn. Ef við værum í þeirri stöðu núna væri auðvitað ekki nein umræða um erfiðleika í rækjuvinnslu eða í útgerð. Síðan gerist annað tveggja, annars vegar hrynur stofninn og hins vegar er ráðgjöfin komin niður í 5 þús. tonn nú um stundir og fer minnkandi.

Ég ætla að nefna í þessu sambandi að stofnvísitala úthafsrækju árið 2012, samkvæmt skýrslunni, mældist svipuð árið 2011 og var nálægt sögulegu lágmarki. Vísitala kvendýra var stöðug milli ára, en hrygningarstofninn var undir meðallagi áranna 1998–2011.

Neðar í sömu skýrslu stendur, með leyfi forseta:

„Nýliðun er miðuð við tveggja ára rækju […] Frá árinu 2004 hefur nýliðunarvísitala rækju verið langt undir meðallagi og útlit fyrir að árgangar 2002–2009 séu allir mjög litlir.“

Að lokum:

„Niðurstöður SMR árið 2012 benda til að stofninn fari minnkandi, afrán þorsks er enn frekar mikið og nýliðun virðist vera léleg eins og verið hefur undanfarin ár.“

Við erum sem sagt með stofn þar sem væntingar til þess að hann vaxi eru engar. Því miður eru líkur á að hann minnki. Eins og ég sagði sjálfur í framsöguræðunni að þótt ein útgerð mundi fá allan þann rækjukvóta sem hér væri mundi það ekki duga til þess að reka rækjuvinnslu. Þess vegna er sveigjanleikinn sem við höfum haft. Við færum á milli ára því að okkur finnst skynsamlegt að geyma fiskinn í sjónum frekar en að veiða hann, koma með hann á land og selja hann á lélegum mörkuðum á lélegu verði, ég tala nú ekki um ef stofninn græðir á því að vera geymdur í sjónum. Sveigjanleiki fortíðarinnar var að hætta veiðum þegar olíukostnaður og annar kostnaður sem við bættist við að sækja tegundina varð langt umfram arðsemi þess að veiða hana. Það voru forsendur þess.

Það var auðvitað slæmt þegar ákvörðun fyrri ríkisstjórnar og fyrri sjávarútvegsráðherra var tekin um að gefa veiðarnar frjálsar að engar vísbendingar voru gefnar, boðað var að það kæmi frumvarp til þingsins sem aldrei kom sem ætti að taka á því hver réttarstaða þessara ólíku aðila væri, annars vegar þeirra sem höfðu áður haft aflahlutdeildir og hins vegar hinna, og við hverju þeir mættu búast. Í raun og veru hefur þetta verið í þessu lofti. Þess vegna þarf að höggva á hnútinn. Það er það sem við erum að gera hér með blandaðri leið. Ég er sammála þeim þingmönnum sem tóku til máls um að þetta sé blönduð leið. Það er auðvitað vandi að fara hana, það er ekki augljóst, en sveigjanleikinn í kerfinu á að tryggja það meðal annars menn geti geymt fisk í sjónum.

Þá er það líka til að segja varðandi einstök fyrirtæki að við úthlutum þessu til skipa. Það segir ekkert til um það að einhverjar vinnslur geti ekki fengið þá rækju til vinnslu sem aðrir fá hlutdeildina í og veiða. Þegar frumvarpið tekur á þessu með 30:70% er ekki þar með sagt að með því sé verið að taka á einstaka vinnslum í landinu. Þær þurfa hvort eð er eftir sem áður að afla sér hráefnis til að geta staðið undir rekstrinum, hvort sem er hér innan lands eða með innflutningi á hráefni.

Hér spurði m.a. hv. þm. Guðbjartur Hannesson um hvort ekkert þak væri á hámarkinu, handhafahöfninni. Það er þannig varðandi rækjuna, það eru 20% sem má mest vera, svo að það sé nú sagt.

Hér hafa einnig verið ítrekaðar spurningar um rökstuðning fyrir þessari skiptingu per se. Í greinargerð með frumvarpinu í 3. kafla, í síðustu málsgreininni, er sagt, með leyfi forseta:

„Með þeirri tillögu sem frumvarp þetta hefur að geyma er leitað málamiðlunar milli þeirra ólíku sjónarmiða og hagsmuna sem hér er um að tefla. Telja verður að með því sé ekki gengið svo nærri réttindum fyrri hlutdeildarhafa að varði skaðabótum. Um leið er leitast við að taka tillit til hagsmuna þeirra sem stundað hafa veiðar í skjóli þess frelsis sem ríkt hefur til veiðanna síðustu þrjú fiskveiðiár.“

Að lokum, virðulegi forseti. Hér hefur líka verið spurt: Af hverju á ekki að bíða, af hverju kemur þetta núna? Ég hef reynt að útskýra það og skal enn og aftur gera það glaður. Við teljum mikilvægt að ná stjórn á fiskveiðum; á þessum stofni eins og öðrum, m.a. með tilvísun til sjálfbærninnar og þess að við erum ábyrg. Á síðastliðnu fiskveiðiári þurftum við að stöðva veiðarnar að mig minnir 1. júlí. Ef við hefðum haldið áfram á sömu braut og vaxandi sókn hefði haldið áfram hefðum við væntanlega þurft að stöðva veiðarnar fyrr. Því lýstum við því yfir að þegar þessi leið yrði farin og farið með frumvarp inn í þingið mundi ekki skapast nein veiðireynsla af veiði þessa árs. Ég vænti þess því að engin útgerð stundi veiðar á rækju um þessar mundir, þessa mánuðina eða næstu með það fyrir augum að sækja sér veiðireynslu. Það verður ekki þannig. Þá hljóta menn að stunda veiðarnar fyrst og fremst á ábyrgan hátt séu þær skynsamlegar og arðsamar.

Ég vænti þess að menn hafi skilning á því að hér sé verið að taka á stjórnunarþætti. Tilgangurinn er í sjálfu sér fólginn í þeim ávinningi fyrir þær útgerðir sem stunda þessar veiðar og þjóðina að því fyrr sem þingið afgreiðir þetta mál og komi þar af leiðandi stjórn á þessa tegund eins og aðrar, þeim mun betra. Málið er nú komið í hendur þingsins. Ég treysti hv. atvinnuveganefnd fullkomlega til að taka á því, leita eftir spurningum og reyna að finna svör við sem flestu áður en málið verður afgreitt úr þinginu.

Ég vil að lokum þakka fyrir þessa málefnalegu umræðu og vænti þess að eiga gott samstarf við nefndina um að ljúka málinu hratt og vel.