143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

uppbyggðir vegir um hálendið.

17. mál
[17:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki ástæða til að leggjast gegn því að mál af þessu tagi sé skoðað. Hér er talað um þjóðhagslega hagkvæmni og umhverfisáhrif eru nefnd í formi einhvers konar forkönnunar á þeim sem og samfélagsleg áhrif framkvæmdarinnar, áhrif á ferðaþjónustu, byggðaþróun o.s.frv. Það er engu að síður ástæða til að stíga varlega til jarðar og jafnmikið og mig langar til að taka þessu ágæta frumkvæði flutningsmanna vel ætla ég ekki að hrökkva úr karakter með það að ég vil mæla hér ýmis varnaðarorð í leiðinni.

Í fyrsta lagi held ég að okkar bíði nú brýnna verkefni og það er að koma því á hreint hvar eiga að vera vegir og hvar ekki, hvað eigi að teljast vegir og hvað ekki og stöðva tilviljanakennda og handahófskennda þróun í þeim efnum að nýir vegir verði til með því að einhverjir keyri utan vegar og svo aðrir á eftir þeim og myndist slóð og þar með sé það eftir nokkur ár orðinn vegur. Á því er reynt að taka í nýjum náttúruverndarlögum. Það væri að minnsta kosti ánægjulegra að heyra að samhliða stigu menn hér á stokk og segðu að það skyldi gera það sem þar stendur til; að koma upp kortagrunni og skrá vegi og slóðir sem verða viðurkenndar og akstur verður leyfður á og komið í veg fyrir að ekið sé annars staðar eða nýjar slíkar slóðir myndist. Ég vil minna á það. Það þýðir ekki að láta æsingakennda umræðu um að þetta snúist um ferðafrelsi eða annað því um líkt ýta þeirri alvarlegu staðreynd til hliðar að þeir sem til þekkja vita auðvitað hvernig þetta hefur gengið og hefur því miður verið að þróast mörg undanfarin ár. Það er ástæða til að stíga varlega til jarðar.

Hér er talað um uppbyggða vegi. Að vísu sé ég ekki, að minnsta kosti ekki í tillögugreininni sjálfri talað um heilsársvegi, en þó er engu að síður ljóst að fyrir sumum vakir, þegar þeir tala um uppbyggða vegi yfir hálendið, að það eigi að vera heilsársvegir með þjónustu, ella mundu hugmyndir manna um að með því séu meginflutninga- og samgönguæðar milli landshluta styttar ekki ganga upp nema þá hluta úr árinu. Það er auðvitað verulegur munur á því að lagfæra vegi þar sem þeir liggja í landinu og hinu að byggja þá upp miðað við fullan staðal eins og Vegagerðin notast nú við.

Við þurfum líka að vega og meta kosti þess og mikilvægi að varðveita öræfin, miðhálendið og víðernin og glata ekki á móti verðmætum einkennum þeirra sem eru í og með það sem dregur fólk að þeim, það er að þau eru eins og þau eru, ónumið land með lítil ummerki eftir manninn. Nútímalegur vegur sem lagður er samkvæmt stöðlum, beinn og breiður eins og strik í landinu, gjörbreytir ásýnd slíkra svæða. Til að taka af allan vafa get ég sagt fyrir mitt leyti að ég er algerlega andvígur slíkum vegi yfir Sprengisand, milli jökla og yfir Sprengisand. Ég tel að hann eyðileggi þá upplifun af miðhálendinu og öræfunum sem ég a.m.k. vil sjá. Það kann vel að flokkast sem persónulegt viðhorf, gott og vel, en ég hef þá skoðun og ég trúi að þeir séu fleiri. Ég tala nú ekki um ef meðfram þeim vegi eða stutt frá honum ættu að liggja risavaxin háspennumöstur norður á milli jökla og um Sprengisand. Það er ekki mín framtíðarsýn fyrir miðhálendi Íslands.

Þá vil ég nefna það sem er óumflýjanlegt að tala um í þessum efnum að það er náttúrlega víðar verk að vinna í samgöngumálum. Og hvað er mikilvægast? Að fara í kostnaðarsamar milljarða- eða milljarðatugaframkvæmdir af þessu tagi eða að klára uppbyggingu vegakerfisins í byggð? Nú er boðaður umtalsverður niðurskurður í almennum vegaframkvæmdum með því m.a. að Vegagerðin á að fara að skila af mörkuðum tekjum í ríkissjóð yfir 1,5 milljörðum á næsta ári, sem skerðir auðvitað mjög framkvæmdasvigrúm Vegagerðarinnar. En upp að þessu hálendi liggja bráðónýtir vegir í byggð. Að norðan fara menn yfirleitt upp á Sprengisand um Bárðardal og hvernig er ástandið þar? Það er bráðónýtur 30 km vegur í byggð niður í Bárðardal áður en kemur upp úr dalnum. Eigum við ekki að byrja á honum?

Það er óumflýjanlegt að nefna að við verðum líka að ræða áherslur í fjárveitingum til vegagerðar og hvað á að vera í forgangi næstu árin hjá okkur. Ég held að enn þá bíði brýn verkefni víða í byggð, sérstaklega á tengivegum og hliðarvegum út frá þjóðvegakerfinu sem hafa orðið mjög út undan. Það á við um marga af hinum löngu dölum Norðurlands að ástandið er ærið bágborið fljótlega eftir að kemur út af þjóðvegi 1 eða norðausturleiðinni eða hvaða meginæðar það nú eru. Þar bíður mikil vinna.

Varðandi hagsmuni ferðaþjónustunnar er ég að sjálfsögðu ekki að mæla óbreyttu ástandi bót. Mér er vel kunnugt um það hversu erfitt er að eiga við hálendisvegina eins og þeir eru í dag með malarslitlagi og veldur miklum takmörkunum á möguleikum til að fara um þá nema að allt meira og minna hristist í sundur. Ég hef svo sem velt því fyrir mér: Er einhver málamiðlun að Kjalvegur verði lagaður, hann verði látinn liggja í landinu engu að síður og ekki byggður mikið upp fyrir yfirborðið en bundinn slitlagi þannig að hann verði þægilegri yfirferðar? Þar er þá valkostur fyrir þá sem vilja fara á litlum bílum yfir hálendið á bundnu slitlagi. Það væri að minnsta kosti nærtækara verkefni og eitthvað sem ég væri frekar tilbúinn til að athuga en hugmyndir um uppbyggingu á risavöxnum vegi milli jökla eða milli Hofsjökuls og Þjórsárvera og friðlandanna sem þar eru annars vegar og Vatnajökulsþjóðgarðar hinum megin og Tungnafellsjökuls. Ég sé ýmsar aðrar hugmyndir fyrir mér í þeim efnum.

Ef menn ætluðu síðan að tengja þann veg — eins og ég veit að vinir mínir eystra margir vilja — með vegi sem ætti að þvera norðausturhálendið af Sprengisandsleið og austur að Kárahnjúkum eða niður á Hérað, yrði það dálítið mikil framkvæmd, mundi marka allmikið það svæði. Ég mæli með því að menn stígi þar varlega til jarðar. Hagsmunir ferðaþjónustunnar geta líka verið blandaðir í þessum efnum. Það er líka hluti ferðaþjónustunnar sem leggur mikið upp úr því að bjóða fólki í ferðir inn á ósnortið miðhálendi Íslands.

Ég sé ekki betur en að þetta mundi kalla á grundvallarbreytingar á gildandi skipulagi miðhálendisins. Meginhugsun þess er sú að reyna að halda allri meiri háttar mannvirkjagerð utan hálendisins sjálfs og þar sé fyrst og fremst aðstaða fyrir dagþjónustu og að tjalda eða gista í skálum, en meiri háttar mannvirkjagerð sé takmörkuð við hálendisbrúnina, í eða neðan við hálendisbrúnina. Mundu þessar hugmyndir samrýmast þeirri hugsun miðhálendisskipulagsins vel? Augljóslega yrði umtalsverð þjónusta að koma til staðar ef menn færu að flytja ferðamenn í stórum stíl og láta þá flæða yfir miðhálendið eftir uppbyggðum vegum milli landshluta til að dreifa álaginu, sem er vissulega mikilvægt markmið. En er þetta endilega leiðin? Er ekki vænlegra að reyna að fjölga hliðunum til landsins og taka ferðamenn inn á fleiri staði þannig að álagið dreifist, en sæki síðan upp á hálendið ýmist að norðan eða sunnan, austan eða vestan?

Þetta eru allt sjónarmið, virðulegi forseti, sem ég vildi láta koma fram. Eins og ég segi, ég geri að sjálfsögðu ekki athugasemdir við það og finnst skiljanlegt, jafnmikið og þessi mál eru til umræðu, að menn vilji skoða þau, setja í vandaða úttekt. Ég held að að því borði þurfi allir koma sem þarna kunna að hafa skoðanir, náttúruverndar- og umhverfisverndarsamtök, þeir sem fara með málefni Vatnajökulsþjóðgarðs og þjóðgarðanna, fulltrúar heimamanna ekki síður en bara stjórnvöld eða ríkisstjórnin eins og hér er beint orðum til. Ég set mína skýru fyrirvara á það hversu skynsamlegt er að kynda upp væntingar um að þetta sé í hópi stærstu og mikilvægustu forgangsverkefna í íslenskum samgöngumálum á allra næstu árum, líka í ljósi þess hvernig fjárhagsstaðan er og hvað mörg önnur brýn verkefni bíða í byggð. En vissulega þarf að móta um þetta stefnu. Hana hefur skort í talsverðum mæli, ég get tekið undir það. (Forseti hringir.) Það mætti gjarnan liggja skýrar fyrir til framtíðar litið: Hvar verður vegagerð leyfð og hvers konar vegagerð og hvaða áherslur verða í þeim efnum?