143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

uppbyggðir vegir um hálendið.

17. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Haraldur Einarsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir orð hans. Ég er alveg sammála honum í því að við þurfum að stíga varlega til jarðar og sérstaklega stöðva tilviljunarkennda slóða og afmarka hvar má keyra og hvar ekki. Þegar slóðarnir eru niðurgrafnir og það byrjar að snjóa er kominn snjór ofan í veginn og hvað gera menn þá? Þeir keyra utan vegar. Ég deili alveg þeim skoðunum. Ég trúi því að þingmaðurinn vilji hjálpa okkur að stöðva að menn keyri utan vegar og búi til nýja slóða og nýja vegi. Uppbyggður vegur er ekki endilega burðarvegur frá Vegagerðinni eða tvöfaldur malbikaður ferðamannavegur. Við sjáum núna að þessir slóðar sem eru niðurgrafnir þorna síðast og eru þvottabretti fyrir bílana.

Ég vil líka benda á að ferðaþjónustufyrirtæki fullyrti við mig að lítið sem ekkert hefði verið gert fyrir Kjalveg síðan 1996. Þegar kemur að forgangsröðun og mikilvægi hlýtur því að vera komið að þeim vegum, alla vega að því að gera eitthvað.

Ég er alveg sammála því að við þurfum að varðveita víðernið og ekki megi leggja vegi þvers og kruss úti um allt. En er það að varðveita víðernið þegar bílar keyra þarna á þurrum dögum og það myndast margra metra háir rykstrókar sem vara heillengi á eftir? Það eru allt spurningar sem við þurfum að velta fyrir okkur.