143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

uppbyggðir vegir um hálendið.

17. mál
[17:20]
Horfa

Flm. (Haraldur Einarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að hann talaði um „áberandi sjónrænt“. Þegar maður er uppi á hálendi er maður þá að velta fyrir sér hvernig vegurinn er? Auðvitað er ég ekki endilega að leggja til að við leggjum einhverja uppbyggða hraðbraut þarna yfir. En það hefur líka ákveðna kosti að láta nýjan veg fylgja eldra vegarstæði og taka af hættulegar beygjur og sneiða hjá erfiðum stöðum.

Áberandi og sjónrænt, áberandi miðað við hvað? Þegar við erum á veginum erum við líklega að fylgjast með landslaginu. Ég sé til dæmis ekki að vegurinn á Þingvöllum trufli neitt landslagið þar. Svo eru vegakerfi í alls konar þjóðgörðum úti um heim, það er bara vegakerfi til að hægt sé að njóta náttúrunnar. Ég mundi vilja sjá svona veg til að hægt sé að njóta náttúrunnar sem best.