143. löggjafarþing — 20. fundur,  12. nóv. 2013.

uppbyggðir vegir um hálendið.

17. mál
[17:23]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að leggja aðeins orð í belg í þessari umræðu. Ég held að sú tillaga sem hér er flutt af hv. þm. Haraldi Einarssyni sé góðra gjalda verð. Það sem er jákvætt við hana er auðvitað að með henni eru lögð drög að einhvers konar skipulagningu, úttekt og áætlanagerð sem okkur skortir svo mjög í þessum efnum. Ég held að það sé í sjálfu sér bara hið besta mál að menn geri forkönnun á umhverfisáhrifum og kanni samfélagsleg áhrif slíkra framkvæmda, m.a. á ferðaþjónustu, byggðaþróun, öryggi og tækifæri á norðurslóðum. Það er hið besta mál.

Ég vil samt sem áður taka undir þau varnaðarorð sem koma fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, það er ekki alveg sama hvort menn eru að tala um uppbyggða vegi eða það sem Vegagerðin hefur kallað ferðamannavegi eins og veginn við Gjábakka á Þingvöllum. Hann er malbikaður vegur en fylgir landslagi, leyfir ekki mjög hraða umferð og sker sig ekki mjög úr umhverfinu. Það þekkja allir þennan veg þegar menn tala um svona ferðamannavegi og mér er kunnugt um að í fórum Vegagerðarinnar séu ágætisgögn um möguleikana á að útbúa slíkan veg yfir Kjöl.

Ef maður einangrar þessa umræðu við Kjöl má kannski segja að sú leið sé dálítið frábrugðin öðrum þeim leiðum sem taldar eru upp í þessari þingsályktunartillögu að því leytinu til að þar er gríðarlega mikil umferð. Þar eru starfrækt nokkur fyrirtæki, það eru siglingar við Hvítárvatn, mikill rekstur á Hveravöllum og mikill rekstur og ferðamannaaðstaða í Kerlingarfjöllum. Allt krefst þetta mikilla fólksflutninga. Þarna fer fólk á óbreyttum bílum enda er Kjölur svo til alveg laus við ár og vöð sem þarf að fara yfir þannig að það er tiltölulega auðvelt fyrir óbreytta bíla að fara þessa leið. Þar með er ekki öll sagan sögð vegna þess að vegurinn hefur verið svo slæmur að menn þurfa að meta við sjálfa sig hvort þeir eru tilbúnir að fórna bílum sínum í slíkt ferðalag.

Ég hef sjálfur að undanförnu tekið að mér verkefni sem leiðsögumaður á hinum gamla Kjalvegi og þekki þess vegna ágætlega til á þessum slóðum. Ég hef farið með rútum þarna og vegurinn er vægast sagt hörmulegur. Það þarf að bregðast við því vegna þess að umferðin er mikil og það er eftir miklu að slægjast. Það er hins vegar hægt að gera þetta þannig að menn séu ekki að byggja upp veg sem sést langar leiðir. Það má fylgja landslaginu og með því held ég að fengist mjög góður vegur sem hægt væri að nota yfir sumartímann.

Ég hef líka nokkra reynslu af því að aka uppbyggða vegi á hálendinu vegna þess að hluti Sprengisandsleiðar er um uppbyggðan veg, þ.e. Kvíslaveituvegur sem heldur áfram þar sem Sprengisandsleið skiptist í tvær áttir við Versali, ef ég man þetta rétt, og verður að Ölduleið annars vegar og Kvíslaveituvegi hins vegar. Þar er uppbyggður vegur sem er að vetrarlagi mjög hættulegur vegna þess að hann safnar ofan á sig svellbunkum og það er mjög hátt niður af honum báðum megin. Ég held að í sjálfu sér væri engum greiði gerður með því að búa til slíka vegi sem hugsanlega væri hægt að fara að vetrarlagi en sem margvísleg hætta fylgir, m.a. fyrir ökumenn. Svo er auðvitað kostnaður fyrir björgunarsveitir ef eitthvað fer úrskeiðis, auk þess sem mjög harkalegir blindbylir verða að jafnaði að vetrarlagi á Sprengisandi. Í norðaustan- og suðvestanáttum verða gríðarlega mikil veður sem oft vara í þrjá til fimm daga.

Þetta er allt eitthvað sem þarf að taka tillit til. Það er líka þannig á Sprengisandsleið að ef menn ætluðu að fara að búa til aðeins ferðamannavænni veg þar eru að minnsta kosti tvö umtalsverð vöð á jökulám norðan við Nýjadal sem þarf að fara yfir og þar er ekki hægt að fara á óbreyttum bílum. Ef menn eru að tala um að bæta veginn þar þyrftu menn væntanlega að fara í töluvert umfangsmikla brúargerð. Mér finnst það stærra spursmál.

Hvað varðar Fjallabakið liggur líka mikill ferðamannastraumur þangað, sérstaklega ef við tökum þær tvær leiðir sem liggja inn í Landmannalaugar sem eru einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna. Annars vegar er Dómadalsleið og hins vegar Sigölduleið. Báðar þessar leiðir eru mjög erfiðar og mætti alveg sjá fyrir sér að á Dómadalsleið yrði búinn til einhvers konar ferðamannavegur sem gæti betur þolað og tekið við umferðinni.

Það er að mörgu að hyggja í þessum efnum en mér finnst tillagan jákvæð. Ég tek þó líka undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði um lög um náttúruvernd. Í þau var skrifað að menn skyldu fara í kortlagningu á þeim vegum og slóðum sem til staðar eru, ákveða hvaða vegir og slóðar ættu að tilheyra hinu eiginlega vegakerfi þjóðarinnar og láta þar staðar numið þannig að ekki tíðkaðist lengur þessi sjálfvirka slóðagerð sem því miður hefur allt of lengi fengið að grassera. Einhver býr til slóð með því að aka það sem honum sýnist hægt að aka, tekur þann feril upp í GPS-tækið sitt, deilir honum mögulega á netinu og svo fara aðrir þetta, leiðin fer inn í kortagrunna og fólk fer að telja þetta sjálfsagðan veg að fara. Ég hef sjálfur rekist á útlenda ferðamenn sem eru á slíkum slóðum á tiltölulega lítið breyttum bílum, í sjálfu sér í hættu staddir og komnir í ógöngur.

Það er mál að linni þar. Menn þurfa virkilega að fara að setja tíma, peninga og afl í að klára þá vinnu. Ég teldi ráðlegt, úr því að hæstv. umhverfisráðherra er í salnum, að menn tækju að minnsta kosti þann kafla út í þeim náttúruverndarlögum sem hafa verið samþykkt og bíða gildistöku, en hæstv. ráðherra hefur boðað að fresta gildistöku á, og endurvinna með einhverjum hætti. Menn gætu jafnvel flýtt þeim kafla sem lýtur að þessari kortlagningu vegna þess að það er í sjálfu sér ekkert sem á að tefja að sú vinna fari af stað. Það er bráðnauðsynlegt að menn geri það, ekki síst með tilliti til þess hversu mjög ferðamannastraumurinn eykst á Íslandi og hversu mikil ásókn er í að fara um hin ósnertu víðerni sem hálendið og Fjallabakið eru.

Á sama tíma og ég fagna því að þessi tillaga er lögð hér fram, að því leytinu til að hún er mjög varfærin og gerir ráð fyrir því að menn ráðist í viðamikla úttekt og skoði ýmsa þætti, ítreka ég líka að einmitt það skiptir mjög miklu máli, að menn stígi varlega til jarðar. Það eru mikil verðmæti fólgin í hálendi Íslands, í þeim ósnortnu víðernum sem þar er að finna, og við eigum að taka höndum saman um að ganga sem varlegast þar um.