143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Nýja hægri stjórnin hættir ekki að koma á óvart. Sama dag og kallað er eftir hagræðingu í ríkisrekstri fjölgar aðstoðarmönnum ráðherra. Einn daginn er kallað eftir færri ríkisstarfsmönnum og þann næsta fjölga ráðherrar aðstoðarmönnum. Þetta kallast væntanlega að ganga á undan með góðu fordæmi.

Skilaboðin sem hæstv. ríkisstjórn sendir með þessum ráðningum er að lítið sé að marka heitstrengingar um hagræðingu. Hæstv. ráðherrar munu einnig eiga í vandræðum með að réttlæta fækkun ríkisstarfsmanna enda nóg til af peningum þegar þörfin er brýn. Jafnt atvinnurekendur sem launafólk kalla eftir framtíðarsýn. Hún er engin. Skattar og gjöld eru lækkuð á þá sem breiðust hafa bökin, hafinn er niðurskurður að nýju í heilbrigðiskerfinu og nú hefur hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar skilað tillögum sínum sem margar fela í sér fækkun starfa.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segist vilja hagræða. Kannski kalla þau niðurskurð á fjármunum til vinnumarkaðsaðgerða fyrir atvinnuleitendur hagræðingu. Ég kalla það svik við fólk sem hefur misst vinnu sína í kjölfar hrunsins. Kannski kalla þau sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni hagræðingu. Ég kalla það svik við fólk sem hélt að það væri að kjósa flokka sem vildi byggja upp heilbrigðiskerfið.

Herra forseti. Þeir sem boða hagræðingu verða að ganga á undan með góðu fordæmi. Það er til skammar fyrir flokka sem leggja fram 111 niðurskurðar- og hagræðingartillögur að auglýsa á sama tíma sífellda fjölgun framsóknarmanna í starfsmannahaldi Stjórnarráðsins.