143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með þeim sem hér hafa talað um nýjasta útspil framsóknarmanna og velta því upp, eins og gert var áðan, hvort það geti talist eðlilegt þegar horft er til þrískiptingar valdsins að handhafi löggjafarvaldsins gerist aðstoðarmaður handhafa framkvæmdarvaldsins. Hvorum megin situr einstaklingur sem settur er í þá stöðu hverju sinni? Getur hann valið það? Í dag ætla ég að sitja þarna eða þennan klukkutíma?

Það er alveg klárt að aðstoðarmenn ráðherra heyra beint undir boðvald ráðherra síns. Það er því æðivafasamt að þingmaður sé settur undir slíkt stjórnskipunarlegt boðvald. Svo má auðvitað velta fyrir sér líka hvort verið sé að breyta hlutverki aðstoðarmanna í aðstoðarráðherra. Eða hvað?

Í þessu tilfelli erum við að tala um þingmann sem situr í fjárlaganefnd og það er ekkert óeðlilegt að maður velti fyrir sér þegar hann situr þar inni hvorum megin hann er. Er hann aðstoðarmaður ráðherra þegar hann sinnir nefndarstörfum eða er hann þingmaður?

Það er eiginlega ekki hægt að sinna báðum þessum hlutverkum að mínu viti. Svo má líka hugsa um hvort hann eigi að vera yfirfrakki á hinum ráðherrunum eða inni í ráðuneytunum, hann á að fylgja eftir tillögum hagræðingarhópsins. Það er líka spurning sem vert er að fylgja eftir.

Það er eiginlega alveg með ólíkindum og í rauninni finnst mér að forseta beri að skoða hvort þetta stenst þau þingskapalög og önnur sem við störfum eftir.