143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á frétt í DV í dag um að fjölskylda hafi verið borin út í brjáluðu veðri. Einstæð móðir grátbað um frest, komin með leiguhúsnæði um næstu mánaðamót en lögfræðingur Íbúðalánasjóðs og sýslumaður rak hana út og skipti um lás.

Annar lögfræðingur Íbúðalánasjóðs segir að það sé því miður ekkert við þetta mál sem kallar á að brugðið verði frá því verklagi sem sjóðurinn viðhefur í málum sem þessum. Yfirlögfræðingur sjóðsins segir að í þessu máli hafi verið farið í einu og öllu eftir reglum sjóðsins og að vissulega komi ekki til útburðar nema að undangengnu talsverðu ferli. En hvernig er það ferli? Er ekkert sem við þingmenn getum gert í þessu máli? Jú, við getum nefnilega gert eitthvað ef við viljum. Alþingi hefur stefnumótunarvald yfir Íbúðalánasjóði sem er í eigu ríkisins og Alþingi getur með lögum skipað Íbúðalánasjóði að stöðva nauðungarsölur á heimilum landsmanna þar til dómstólar taka af allan vafa um lögmæti lánanna sem á þeim hvíla.

Núna liggur fyrir EFTA-dómstólnum fyrirspurn frá Hæstarétti um það hvort verðtryggð húsnæðislán séu lögmæt. Við erum að bíða eftir þeim úrskurði. Ríkisstjórnin hefur sjálf kallað eftir og gert mögulegar flýtimeðferðir á dómsmálum til að fá úr því skorið, en samt er verið að bera fólk út og selja eignir þess á nauðungarsölu sem er óafturkræft þannig að fólkið fær aldrei aftur heimili sín. Hvers vegna sköpum við ekki smáskjól?

Á morgun mun ég mæla fyrir slíku lagafrumvarpi, frumvarpi til laga um að Íbúðalánasjóði verði tímabundið óheimilt að krefjast nauðungarsölu á fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili. Meðflutningsmenn frumvarpsins eru þingmenn Pírata, Bjartrar framtíðar, Samfylkingar og Framsóknarflokks. Frumvarpið gæti (Forseti hringir.) orðið að lögum ef við viljum í næstu viku. Þá sköpum við skjól (Forseti hringir.) svo að fólki sé ekki vísað af heimilum sínum ef óvissa er (Forseti hringir.) um lögmæti lánanna.