143. löggjafarþing — 21. fundur,  13. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það virðist alveg fara með þá sem eru íhaldssamastir hér inni að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hafi verið ráðinn aðstoðarmaður án launa hjá hæstv. forsætisráðherra. Hingað koma menn í löngum röðum og vita ekkert hvað er í gangi, ræða launamál þingmannsins — hvaða taugaveiklun er þetta? Þetta hefur ekki verið gert áður en er einhver ástæða til að fara fullkomlega yfir um út af því?

Menn koma í fullri alvöru og segja að af þessum 111 tillögum séu engar beinar tillögur. Það er augljóst að þeir hafa ekki lesið eina einustu tillögu ef þeir komast að þeirri niðurstöðu. Til dæmis tillaga 17, um að setja þjóðgarðana í eina stofnun, er það ekki bein tillaga? Og að sameina stoðþjónustu innan Stjórnarráðsins, er það ekki bein tillaga? Fasteignir Stjórnarráðsins og forsætisráðuneytisins, er það ekki bein tillaga? Er ekki bein tillaga að stefna að því og fara í það verkefni að fækka sendiskrifstofum? Er ekki bein tillaga að fækka starfsmönnum utanríkisráðuneytisins? Er það ekki bein tillaga?

Virðulegi forseti. Það er ekkert að því að vera efnislega ósammála þessum 111 tillögum, ekki neitt, en ég hvet þá hv. þingmenn til að koma sér þangað. Við skulum ræða þessa hluti. Svo veit ég ekki alveg hvað við eigum að gera við þá sem eru íhaldssamastir hér þegar kemur að þeirri gríðarlega róttæku breytingu, hvorki meira né minna, að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason aðstoði hæstv. forsætisráðherra. Ég verð að viðurkenna að ég held að allir sem að því máli koma, ég kom að vísu ekki að því heldur frétti það eins og aðrir, hefðu hugsað sig vel um ef þeir hefðu áttað sig á því hvaða rót kæmi á huga hv. þingmanna sem koma hér — eru ekki komnir þrír? — til að býsnast yfir því og hafa áhyggjur af launamálum þingmannsins. (Gripið fram í.)